Nýta gervigreind í svefnrannsóknum

Hátæknifyrirtækið Nox Medical hefur leitt þróun hinnar nýstárlegu aðferðar, sem …
Hátæknifyrirtækið Nox Medical hefur leitt þróun hinnar nýstárlegu aðferðar, sem miðar að því að fólk geti framkvæmt svefnrannsóknir á sjálfu sér heima við. Getty images

Dr. Erna Sif Arnardóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík, hefur í samstarfi við hátæknifyrirtækið Nox Medical hlotið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til rannsókna á gervigreindaraðferð sem nýtt er til svefnrannsókna, svo sem greiningar á kæfisvefni.

Hátæknifyrirtækið Nox Medical hefur leitt þróun aðferðarinnar, sem gæti reynst byltingarkennd í svefnlæknisfræði vegna þess hversu einföld hún er til mælinga.

Dr. Jón Skírnir Ágústsson, sem leiðir gervigreindar- og gagnavísindateymi Nox Medical, segir að hin nýja tækni muni gera fólki með ódæmigerðan kæfisvefn kleift að framkvæma svefnrannsóknir heima hjá sér.

Belti sem mæla öndunarhreyfingar

„Venjulega þegar verið er að greina svefn hjá fólki og örvöku, þarf að mæla heilarit. Sérþjálfað starfsfólk þarf til að setja upp heilaritin, sem er kostnaðarsamt og orsakar aukna bið hjá sjúklingum.

Svefninn er skilgreindur út frá því hvað sést í þessum heilaritum. Það sem við erum að sjá núna er að við getum framkvæmt einfaldar mælingar á öndunarhreyfingum á brjóstkassanum og maganum á fólki. Við erum með belti sem sem eru einkaleyfavarin og framleidd af Nox Medical sem við setjum um brjóstkassann og magann og mæla öndunarhreyfingar,“ segir hann og heldur áfram:

„Það sem við erum að fara að gera með Háskólanum í Reykjavík er að rannsaka hversu vel þessi nýja aðferð virkar á mismunandi sjúklingahópum. Við höfum áhuga á að greina svefn hjá fólki sem er ekki með venjulegan svefn heldur svefnraskanir. En áður en við getum gefið þetta út sem lækningartæki þurfum við að skilja mjög vel hvort það séu einhverjir sjúklingahópar sem þetta virkar sérstaklega illa eða sérstaklega vel fyrir,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að fyrirtækið ráðist í rannsóknina ásamt sjálfstæðum aðila á borð við HR.

Algengt að konur þurfi að leggjast á spítala

Byltingin felist í að aðstoða fólk sem er með óvenjulegan kæfisvefn:

„Margt fólk er til dæmis að kljást við kæfisvefn sem er óvenjulegur og erfiðara að greina. Konur fá til að mynda öðruvísi kæfisvefn en karlar. Því er algengt að konur þurfi frekar að leggjast inn á spítala og sofa með rafskautið í hárinu og mæla öndun og súrefnismettun,“ segir hann en sá sjúklingahópur fái oftar ekki greiningu með einföldum mælingum heima hjá sér.

„Þetta eru hópar sem eru að greinast seinna eða eru síðar að greinast en eru að glíma með sömu læknisfræðilegu afleiðingarnar og aðrir sem eru með týpískari birtingu af kæfisvefni. Við sjáum fyrir okkur að við getum vonandi búið til einfaldari tæki og fengið frekari upplýsingar úr svefnmælingum sem eru framkvæmdar í heimahúsum hjá fólki. Í stað þess að fólk þurfi að fara á spítala og hitta sérfræðing sem setur upp mælinguna, þá getum við  sent þeim mælitæki í pósti, fólk setur mælitækið á sig sjálft og sefur síðan heima hjá sér.“

Gervigreindaraðferð Nox Medical byggir á því að greina á milli vöku og mismunandi svefnstiga; vöku, svefns og draumsvefns. Hún er einnig nýtt til að nema örvökur í svefni en það eru stutt tímabil þar sem truflun verður á svefni, t.d. vegna öndunarhléa. Við hefðbundnar mælingar þarf að nota heilarit til að nema svefnstig og örvökur en með tækni Nox Medical eru nákvæmar mælingar á öndunarhreyfingum sjúklinga notaðar til sömu gagnaöflunar. Aðferðin opnar einnig á að nýta einfaldari svefnmælingu til að greina kæfisvefn og til að fylgjast með hvernig meðferð við kæfisvefni gengur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert