„Fólk sem veit ekkert um hvað það er að tala“

Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, og Helga Dögg Sverrisdóttir …
Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, og Helga Dögg Sverrisdóttir grunnskólakennari. Samsett mynd

„Þetta er fólk sem veit ekkert um hvað það er að tala. Ég átta mig ekki á hvaðan þetta kemur nema þá helst frá vanþekkingu og fordómum.“

Þetta segir Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, um grein Helgu Daggar Sverrisdóttur grunnskólakennara sem birtist í Morgunblaðinu í gær.

Í þeirri grein velti Helga því fyrir sér hvort fræðsla á vegum Samtakanna 78 í grunnskólum gerðist brotleg við 99. grein barnaverndarlaga. Í greininni lýsti Helga þeirri skoðun að fræðsla í skólum varðandi málefni transfólks væri móðgandi og vanvirðandi og til þess fallin að stefna heilsu og þroska barna í hættu.

Endurspegla samfélagið

Daníel segir þessa skoðun endurspegla ákveðna herferð gegn transfólki sem virðist hafa sótt í sig veðrið upp á síðkastið.

„Þetta kemur bara frá vanþekkingu og transfóbíu. Allt fræðsluefnið okkar er opinbert á vefnum Ö til A. Við erum heiðarleg og með allt opinbert.“

Hann segir grein Helgu virðast þjóna þeim tilgangi að skapa tortryggni. „Auðveldasta leiðin til að gera það er að segja að einhver sé að fela eitthvað eða að boða eitthvað á skjön við það sem þau segja opinberlega.“

Daníel ítrekar að fræðsla Samtakanna '78 í skólum sé aðeins byggð á því að fagna fjölbreytileika og að öllum eigi að líða vel í eigin skinni. 

„Við eigum öll rétt á okkur og eigum að fá að blómstra eins og við erum. Við [Samtökin '78] erum ekki að segja neinum hvernig þau eru. Raunveruleikinn er sá að þarna eru einstaklingar sem eru trans, sem eru kynsegin og við erum einfaldlega að endurspegla samfélagið.“

Fordómar sem eru hluti af bakslagi

Hann segir að þegar einstaklingar þiggi þjónustu frá samtökunum reyni samtökin aldrei að segja einstaklingnum hvað þau séu. „Einstaklingurinn er að átta sig á því sjálfur. Við veitum bara svör við spurningum á eins kærleiksríkan hátt og við getum.“

Daníel segir þessa tortryggni og fordóma gegn transfólki vera hluta af bakslagi í réttindabaráttu hinsegin fólks. 

„Þetta getur skapað upplýsingaóreiðu sem getur leitt það af sér að fólk horfi öðruvísi á hlutina og beiti ákveðnu orðfæri á netinu sem endar síðan í alvarlegu ofbeldi, eins og við erum að sjá víðs vegar erlendis.“

Skortur á fræðslu stefni börnum í hættu

Hann tekur fram að fræðsla samtakanna stofni alls ekki heilsu eða þroska barna í hættu, þvert á móti. Slík viðhorf undirstriki aftur á móti það að skortur á fræðslu geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir hinsegin börn.

„Ég held að það sjái það flestir sem eru ágætir í lesskilningi að það er ekkert í fræðsluefninu okkar sem skaðar börn, við erum bara að tala um fjölbreytileikann. Maður myndi halda að menntaðir kennarar séu ágætir í lesskilningi. Við erum að segja börnum að þau geti verið nákvæmlega þau sem þau eru.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert