Hús íslenskunnar heitir Edda

Hús íslenskunnar hlaut nafnið Edda í dag.
Hús íslenskunnar hlaut nafnið Edda í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Holan er horfin húsið er risið“ sagði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í opnunarávarpi við formlega athöfn þar sem Hús íslenskunnar, hlaut nýtt nafn í dag. Forsetinn fór með orð úr Íslendingasögum og sagði handritin sem húsið geymi, eina helstu stoð menningararfs Íslands.

Húsið hlaut nafnið Edda en yfir 1.500 tillögur bárust í nafnasamkeppni almennings. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tilkynnti nafnið hússins við athöfnina, en hún las upp brot úr rökstuðningi nefndarinnar sem valdi nafnið. 

„Nafnið er fallegt, lipurt, og séríslenskt. En það er einnig þekkt á alþjóðlegum vettvangi. Það vekur margbreytileg hugrenningatengsl bæði við fortíð og samtíð,  er minnisstætt og hefur jákvæða tilvísun til hlutverks hússins og starfsemi þess í nútímasamfélagi. Þá fellur nafnið vel að heitum annarra bygginga á háskólasvæðinu,“ sagði í rökstuðningi nefndarinnar. 

Frá vinstri: Guðrún Nordal, forstöðukona, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og …
Frá vinstri: Guðrún Nordal, forstöðukona, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Í bakgrunni má sjá Guðna Th. Jóhannesson, forseta og baksvip Jóns Atla Benediktssonar, rektor HÍ. mbl.is/Árni Sæberg

 „Snorraedda og Eddukvæði eru meðal merkustu miðaldartexta á íslensku og nafnið vísar því til visku og fróðleiks liðinna alda,“ sagði Edda Björgvinsdóttir leikkona en hún var ein þriggja kvenna og stúlkna sem bera nafnið, sem voru fegnar til að segja frá nafninu.  

Eddurnar þrjár greindu viðstöddum frá því að fyrsta stúlkan sem hafi borið nafnið Edda, hafi fæðst í Grímsey árið 1909, en að í dag beri um 1.500 konur nafnið. 

Nöfnur segja frá nafninu.
Nöfnur segja frá nafninu. mbl.is/Árni Sæberg

Húsið verður opið fyrir almenningi á morgun, á sumardaginn fyrsta, en húsið er ætlað sem miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum; tungu, bókmenntum og sögu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert