Ísland í fimmta sæti

„Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir hinsegin fólk á Íslandi …
„Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir hinsegin fólk á Íslandi og fyrir samfélagið allt. Árangurinn sem náðst hefur í að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks á Íslandi hefur þó ekki komið af sjálfu sér,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ísland er komið upp í fimmta sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe) og í fyrsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu, en niðurstöðurnar voru kynntar í dag á árlegum samráðsfundi IDAHOT+ sem stendur yfir í Hörpu en Ísland er gestgjafi ráðstefnunnar í ár.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á ráðstefnunni og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir flutti opnunarávarp. Þá flutti Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumálaráðherra einnig ávarp á ráðstefnunni, að því er segir á vef Stjórnarráðsins. 

Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA-Europe) birta árlega Regnbogakort í kringum alþjóðlegan baráttudag hinsegin fólks sem er 17. maí. Kortið sýnir á myndrænan hátt lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks í 49 ríkjum Evrópu. Réttindakort trans fólks í Evrópu (Trans Rights Map 2023) sýnir á sama hátt stöðu trans fólks, segir jafnframt. 

Frá 2018 hefur Ísland farið upp um 13 sæti á Regnbogakortinu en 2018 var Ísland í 18. sæti. Nú er Ísland eins og áður sagði komið upp í fimmta sæti en í fyrsta sæti er Malta, þar á eftir kemur Belgía, þá Danmörk og Spánn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert