Ögmundur fylgist með mannréttindamálum í Tyrklandi

Mynd af hópnum á Taksim torgi í Istanbul
Mynd af hópnum á Taksim torgi í Istanbul Ljósmynd/Aðsend

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og þingmaður á þingi Evrópuráðsins, nú heiðursfélagi, er staddur í Tyrklandi þar sem hann kynnir sér stöðu mannréttindamála og fylgist með kosningum sem fram fara þar í landi á sunnudaginn. Að hans sögn ríkir mikil reiði meðal mannréttindasamtaka í Tyrklandi gagnvart alþjóðastofnunum fyrir að beita sér ekki harðar gagnvart mannréttindabrotum stjórnvöldum þar í landi sem þau segja framin daglega. 

Evrópusambandinu og Evrópuráðinu bíður því mikið verk við að endurheimta traust, en að sögn Ögmundur segja mannréttindasamtök stöðuna í landinu núna verri en hún hefur verið um langt árabil. 

Með Ögmundi í för er Laura Castel, annar þingmaður Evrópuráðsins og Denis O'Hearn, bandarískur prófessor sem sérhæfir sig í mannréttindamálum. Hafa þau síðustu daga kortlagt almennar upplýsingar um stöðu mannréttindamála í Tyrklandi en ekki síst stöðu mannréttinda innan fangelsismúra, með áherslu á fangelsun stjórnmálamanna, blaðamanna og lögfræðinga og hvernig farið er með það fólk.

Mannréttindi víða brotin

Fangelsun vegna andspyrnu fjölgar, fólk er fangelsað fyrir beita sér fyrir auknum réttindum Kúrda og fyrir að vilja hefja að nýju friðarviðræður milli Kúrda og stjórnvalda Tyrkja. Þá eru þau sem hafa í frammi mótmæli við stjórnvöld og jafnvel móðga stjórnvöld einnig fangelsuð að sögn Ögmundar. 

Kúrdar eru þeir sem hafa helst orðið fyrir mannréttindabrotum í Tyrklandi undanfarin ár og þá sérstaklega í fangelsum landsins, en þar sitja þúsundir pólitískra fanga. Einn þeirra er Abdullah Ocalan, leiðtogi Kúrda, en hann hefur setið í einangrunarfangelsi í næstum aldafjórðung og samkvæmt Ögmundi eru á honum brotin öll mannréttindi. 

Hópurinn aflar upplýsinga fyrst og fremst með því að tala …
Hópurinn aflar upplýsinga fyrst og fremst með því að tala við pólitísk samtök Kúrda, mannréttindasamtök, samtök lögfræðinga, fólk úr verkalýs og kvennahreyfingum ásamt öðrum ámóta samtökum. Ljósmynd/Aðsend

Gætu orðið sögulegar kosningar 

Samhliða kortlagningu á stöðu mannréttinda í Tyrklandi fylgist Ögmundur með kosningum sem fram fara í landinu, en kosið verður á sunnudaginn. Um er að ræða bæði þingkosningar og forsetakosningar. Ögmundur segir mjótt á munum milli sitjandi forseta, Recep Tayyip Erdogan og mótframbjóðanda hans Kemal Kilicdaroglu. Að sögn Ögmundar binda mannréttindasamtök og kúrdar vonir við að Kemal beri sigur úr bítum, fari svo getur orðið mikill viðsnúningur í tyrkneskum stjórnmálum, ekki síst á sviði mannréttindamála. 

Sex þingflokkar hafa sameinast að baki Kemal, en um er að ræða ósamstætt bandalag sem þó sameinast um það eitt að vilja koma Erdogan frá. Ögmundur telur það vel geta gerst að Kemal verði kjörinn þó að það komi ekki í ljós fyrr en eftir sunnudaginn. Hann segir það mikilvæga í kosningunum vera að knýja fram stjórnarskipti því við það skapist svigrúm til þess að breyta afstöðu gagnvart mannréttindum í landinu og fangelsun utan dóms og laga gæti lokið. 

Það mun þó taka langan tíma að koma þarna á réttarríki að sögn Ögmundar, enda kerfið gagnsýrt eftir margra ára kúgun. 

Kynna niðurstöður ferðarinnar í tengslum við leiðtogafundinn

Blaðamannafundur, sem jafnframt er opinn almenningi, verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu, miðvikudaginn 17. maí kl. 11:00. Fundurinn er haldinn í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins, þar sem niðurstöður ferðarinnar verða kynntar. 

Með Ögmundi á fundinum verða Denis O'Hearn og Laura Castel ásamt Havin Guneser, verkfræðingi, blaðamanni og kvenréttindakonu sem hefur þýtt nokkrar af bókum Abdullah Ocalan. Hún er einn af talsmönnum alþjóðaátaksins „Frelsi fyrir Abdullah Öcalan—Friður í Kúrdistan“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert