Vakta hitaaukningu í Hveradölum

Vegagerðin fylgist með hitaaukningu undir veginum um Hveradali og er …
Vegagerðin fylgist með hitaaukningu undir veginum um Hveradali og er nú að koma fyrir hitanema til að vakta stöðuna. Ljósmynd/Birkir Hrafn Jóakimsson

Það eru svo sem engar breytingar sem við sjáum þannig lagað,“ segir Birkir Hrafn Jóakimsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, í samtali við mbl.is, staddur í Hveradölum þar sem hann bíður verktaka sem bora mun fyrir hitanema í nágrenni akvegarins en eins og greint var frá hér á vefnum í gær í kjölfar fréttatilkynningar frá Vegagerðinni hefur aukin jarðhitavirkni mælst undir Hringveginum í Hveradalabrekku.

„Þá getum við kortlagt hitastigið betur,“ heldur Birkir áfram en hitanemanum er þannig fyrir komið að hola er boruð með kjarnabor, hún fóðruð með stáli og mælitækinu svo komið þar fyrir.

„Við erum þá að hugsa um að geta gripið til einhverra aðgerða auk þess að spá fyrir um hvað sé að gerast, hversu hratt hitinn sé að aukast undir veginum og hvort við getum tappað eitthvað af þessu neðar í veginum eða hvort við þurfum að bora til hliðar við veginn til þess að létta á þrýstingi, sem sagt alls konar pælingar í gangi en nú erum við bara að koma vöktunarkerfi í gang,“ segir forstöðumaðurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert