Kannast ekki við fullyrðingar Benedikts

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verk.
Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verk. mbl.is/Árni Sæberg

Þorvaldur H Gissurarson, forstjóri ÞG verks, verktakans sem hafði veg og vanda að brúarsmíði yfir Jökulsá á Sólheimasandi, segir að tiltekt hafi þegar farið fram við brúna en málið verði kannað betur eftir umkvartanir landeigenda á Sólheimasandi.

Hann kannast ekki við að hafa boðið Benedikt Bragasyni, framkvæmdastjóra landeigenda, bætur og segir af og frá að mótatimbri hafi verið hent vísvitandi í jökulána. 

Fram kom í máli Benedikts Bragasonar, framkvæmdastjóra landeigenda á svæðinu, að hann telji fráganginn slæman.

Segir hann brak úr brúnni liggja á víð og dreifð auk þess sem mótatimbri hafi verið verið hent í ána sem hann hafi fjarlægt. Þá hafi einnig verið verið steypt plan sem ekkert leyfi hafi verið fyrir. Eins sagði hann að verktaki hafi boðið honum peningagreiðslu í bætur.

Landeigendur hafa kvartað undan umgengni eftir brúarsmíðina.
Landeigendur hafa kvartað undan umgengni eftir brúarsmíðina.

Ekki sannar fullyrðingar 

„Ég hef aldrei hringt í Benedikt og aldrei boðið einum eða neinum bætur. Ég kannast ekki nokkurn skapaðan hlut við fullyrðingar um bótagreiðslur. Enda eru þær ekki sannar,“ segir Þorvaldur.

Hann segir af og frá að verðmætu mótatimbri hafi verið hent viljandi í ána þó sá möguleiki sé fyrir hendi að „einhverjar spýtur“ hafi lent þar.

„Að sjálfsögðu er undirslætti brúarinnar ekki hent út í á. Ég held að þetta hljóti að byggja á einhverjum misskilningi,“ segir Þorvaldur.

Brúin var tekin í gagnið í október á síðasta ári.
Brúin var tekin í gagnið í október á síðasta ári. Tölvumynd/Verkís

Bregðast við ef þurfa þykir 

Hann segir þó að brugðist verði við athugasemdum landeigenda og málið athugað. Í því skyni verður starfsmaður sendur á svæðið eftir helgi. 

„Ef að staðan er sú að eitthvað sé vangert eða ógert og tilheyri okkur þá munum við að sjálfsögðu bregðast við og tryggja það að skil á þessi svæði verði til fyrirmyndar. Þá með því að hreinsa til allt það sem tilheyrir brúarverkinu,“ segir Þorvaldur.

Plan lagt í góðri trú

Hann segir að steypt plan sem enn er á svæðinu hafa verið lagt í góðri trú. BM vallá lagði planið og var í samstarfi við ÞG verk við brúarsmíðina.  

„Ég veit til þess að BM vallá taldi sig vera búið að semja við landeiganda. En síðan kom það upp að það væri einhverjum málum blandið hver var raunverulegur landeigandi á því svæði sem að planið stóð. BM vallá taldi sig hafa samið við þann landeiganda sem var eigandi samkvæmt kortagrunni. Svo virðist það hafa verið málum blandið og menn þurftu að semja við annan landeigenda. Skýringarnar eru því misvísandi upplýsingar í kortagrunnum á svæðinu,“ segir Þorvaldur og bætir því við að planið verði fjarlægt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert