Elfa Rún og Sigur Rós tilnefnd

Elfa Rún Kristinsdóttir
Elfa Rún Kristinsdóttir

Fiðluleikarinn Elfa Rún Kristinsdóttir og hljómsveitin Sigur Rós eru tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2023 fyrir Íslands hönd. Fyrr í dag var tilkynnt að landsbundnar dómnefndir hefðu tilnefnt alls 13 tónlistarmenn, hljómsveitir og hópa þetta árið. Sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Osló 31. október í tengslum við 75. þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur eða rúmar 6,1 milljónir íslenskra.

Hljómsveitin Sigur Rós.
Hljómsveitin Sigur Rós.

„Tilnefningar ársins endurspegla breitt svið tónlistarstefna, allt frá sígildri tónlist, djassi og þjóðlagatónlist til listrænnar samtímatónlistar og tilraunakenndrar rokk- og popptónlistar. Á meðal hinna tilnefndu í ár eru bæði tónskáld og lagahöfundar, einleikarar, þjóðlagatónlistarmenn og tónlistarhópar auk kantele-leikara, píanista og sinfóníuhljómsveitar. Þar má finna alþjóðlegar stjörnur, framúrstefnulega tónlistarflytjendur, kröftugar raddir og skapandi hæfileikafólk auk reyndra flytjenda sem eiga langan feril að baki,“ segir í tilkynningu á norden.org.

Þar kemur fram að Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta sinn 1965. Þeim er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Verðlaunin eru veitt núlifandi tónskáldi annað hvert ár og hitt árið – eins og í ár – eru þau veitt tónlistarhópi eða -flytjanda.

Frá Álandseyjum hljómsveitin Whatclub. ​Frá Danmörku eru tilnend Anja Jacobsen og Peter Uhrbrand. Frá Finnlandi eru tilnefnd Maija Kauhanen og Petri Kumela. Frá Færeyjum er tilnefndur Teitur. Frá Grænlandi er tilnefndur tónlistarhópurinn SIGU. Frá Noregi eru tilnefnd Berit Opheim og Håvard Gimse. Frá Svíþjóð eru tilnefnd Johan Lindström og Norrbotten Neo.

Íslensku dómnefndina skipa Anna Þorvaldsdóttir, Arnar Eggert Thoroddsen og Ásmundur Jónsson, sem er varamaður.

Meistaralegt handbragð

Í umsögn dómnefndar um Elfu Rún segir að hún hafi: „getið sér gott orð fyrir tjáningarríkan og afburðagóðan leik þar sem meistaralegt handbragð og tækni mæta náttúrulegum, fjörlegum og fallegum tóni. […] Hún vakti fyrst athygli á alþjóðavísu árið 2006 þegar hún vann til aðalverðlauna, áheyrendaverðlauna og verðlauna sem yngsti úrslitakeppandi í alþjóðlegu Bach-keppninni í Leipzig. Ferill Elfu hefur verið fjölbreyttur. Henni lætur jafnvel að leika á nútímafiðlu og barokkfiðlu og hún hefur bæði fengist við einleik, kammertónlist og það að leiða stærri hljómsveitir. Elfa hefur spilað víða og hlotið lof um allan heim sem einleikari á tónleikum og með hljómsveitum á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Les Siècles og Hamburger Symphoniker. Einnig hefur hún komið fram sem einleikari og leikið kammertónlist á fjölda hátíða víða um heim, þar á meðal Bachfest í Leipzig og Festival Oude Muziek í Utrecht.“

Afbragðsgóðar lagasmíðar

Í umsögn dómnefndar um Sigur Rós segir: „Frá stofnun sinni árið 1994 hefur íslenska post-rokksveitin Sigur Rós skapað sér feril sem einkennist af afbragðsgóðum lagasmíðum – þar sem þættir úr sígildri tónlist og mínímalískri fagurfræði eru nýttir – auk óþreytandi tilraunamennsku og öflugs og hrífandi tónlistarflutnings. Hin sérstæða listræna sýn hljómsveitarinnar hefur fært henni heimsfrægð og óslitið lof gagnrýnenda. […] Stöðugar vinsældir Sigur Rósar gegnum tíðina má þakka því að sveitin hefur neitað að verða værukær í velgengni sinni, eins og sjá má á þverfaglegu samstarfi við listafólk, danshöfunda, kvikmyndagerðarfólk og íslenska rímnasöngvara svo fátt eitt sé nefnt. Sveitin er einkum þekkt fyrir tónleika sína og hafa aðdáendur og gagnrýnendur lýst tónleikum hennar sem óviðjafnanlegri, nánast trúarlegri upplifun. Á þessu ári sendir sveitin frá sér sína áttundu plötu og fylgir henni eftir með tónleikaferðalagi um heiminn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert