„Það er verið að rústa íslenskum heimilum“

Vilhjálmur Birgisson er í sjokki
Vilhjálmur Birgisson er í sjokki mbl.is/​Hari

„Það er verið að rústa íslenskum heimilum,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), í samtali við mbl.is. Hann lýsir yfir stórkostlegu sjokki á vegferð Seðlabankans sem hækkaði  stýrivexti um 1,25 prósentustig í morgun. 

„Ég get sagt það á góðri íslensku að ég er í stórkostlegu sjokki yfir þessari vegferð sem Seðlabankinn er á. Við skulum bara átta okkur því að frá við undirrituðum kjarasamningana þá hafa stýrivextir hækkað um 3 prósentustig.“

Vilhjálmur segir enn fremur að þessi hækkun „í einni tilkynningu“ sé rétt undir heildarstýrivaxtahækkunum annara þjóða síðan Úkraínustríðið hófst.

Veit ekki hvernig verður farið í kjarasamningsviðræður

Aðspurður um hvaða áhrif hann teldi þessi hækkun hafa á komandi kjarasamningsviðræður í haust segir hann: „Það borgar sig ekki að segja frá því. Ég veit ekki hvernig í himninum eigi að fara í þá vinnu með þetta ástand sem er hjá íslenskum heimilum og Íslendingum. Þetta er algjörlega galið.“

„Á endanum mun verðbólgan byrja að lækka og trúðu mér þá mun Seðlabankinn berja sér fast á brjósti og segja, sjái þið þetta tókst hjá okkur,“ sagði Vilhjálmur, er hann var spurður um hvort hann teldi að þessi hækkun myndi kveða niður verðbólguna. Hann bætti svo við að það væri verið að „rústa íslenskum heimilum“ með þessari ákvörðun.

„Ástæðan fyrir háu vaxtarstigi á Íslandi er verðtryggingin. Hér á landi þá halla bankastjórarnir sér aftur vegna þess að þeir eru varðir í bak og fyrir í gegnum verðtrygginguna“ Og bætti við: „Þetta er algjörlega orðið óþolandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert