Sætti rannsóknaraðgerðum í Danmörku

Tveir sakborninga á leið inn í dómsal í Landsrétti í …
Tveir sakborninga á leið inn í dómsal í Landsrétti í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir lögreglumenn hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gáfu viðbótarskýrslur fyrir Landsrétti í dag við aðalmeðferð saltdreifaramálsins.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Halldórs Margeirs Ólafssonar, spurði annan þeirra hvort umbjóðandi hans hefði sætt rannsóknaraðgerðum bæði á Íslandi og í Danmörku. Lögreglumaðurinn svaraði því játandi og að grunur hefði verið um að Halldór Margeir hefði verið að flytja evrur á milli landa. Lögreglan hefði hins vegar ekki lagt hald á neinar evrur.

Halldór Margeir gaf viðbótarskýrslu fyrir dómi þar sem fram kom að hann færi að meðaltali fimm sinnum á ári til Danmerkur að heimsækja dóttur sína sem þar býr. Hann tjáði verjanda sínum að dönsk lögregluyfirvöld hefðu haft afskipti af sér að beiðni íslenskra yfirvalda og leitað að efnum, en ekkert fundið.

Fjórir af fimm mættu í Landsrétt

Aðalmeðferð er lokið í dag og verður fram haldið á morgun, en málið er á dagskrá dómstólsins fram á fimmtudag. Vel var mætt í dómsal í morgun og voru fjórir sakborningar viðstaddir málsmeðferðina.

Ólafur Ágúst Hraundal, Guðlaugur Agnar Guðmundsson og Halldór Margeir gáfu viðbótarskýrslur fyrir Landsrétti í dag, auk þess sem spilaðar voru skýrslur sakborninganna sem þeir gáfu fyrir héraðsdómi. Geir Elí Bjarnason gaf ekki viðbótarskýrslu og þá mætti Guðjón Sigurðsson ekki í Landsrétt í dag.

Saltdreifaramálið varðar annars vegar inn­flutn­ing am­feta­mín­vökva í miklu magni og hins veg­ar kanna­bis­rækt­un á sveita­bæn­um Hjalla­nesi við Hellu. Voru efnin flutt til landsins með Norrænu frá Hollandi í saltdreifara, en í honum voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva. Var brotið framið í fé­lagi með tveim­ur óþekkt­um er­lend­um aðilum. Í sam­vinnu við óþekkt­an ís­lensk­an aðila fjar­lægðu þeir am­feta­mín­vökv­ann úr salt­dreif­ar­an­um og fram­leiddu allt að 117,5 kg af am­feta­míni í sölu- og dreif­ing­ar­skyni.

mbl.is