Sjálfsalinn fengið alþjóðlega athygli

Sjálfssalinn og húsið sem hann er geymdur í ganga einungis …
Sjálfssalinn og húsið sem hann er geymdur í ganga einungis á grænni orku. Ljósmynd/Aðsend

Nú eru 22 ár síðan Kristinn Kristmundsson, kallaður Kiddi vídeófluga, setti upp kóksjálfsala á veginum frá Egilsstöðum að Borgarfirði eystra.

Nú er þar nýlegri gos- og sælgætissjálfsali sem ferðamenn og aðrir gestir nýta sér þegar þeir heimsækja svæðið. 

Vekur það athygli margra að sjálfsalinn, sem geymdur er í litlu húsi, er staddur í hálfgerðum óbyggðum, skammt frá Hrollaugsstöðum, og eingöngu knúinn áfram af vind- og sólarorku. „Hann er náttúrulega grænmálaður því hann fær ekkert nema græna orku,“ segir Kiddi vídeófluga eða Kiddi vídeó, í samtali við mbl.is. 

Hann segir að reksturinn hafi gengið nokkuð vel í gegnum árin en tekur fram að tilgangur sjálfsalans sé ekki að græða á þessu. 

„Þetta er ekki gróðafyrirtæki, alls ekki! Ég er orðinn ellilífeyrisþegi, 69 ára, og fyrir mér snýst þetta meira um skemmtun, afþreyingu og að hafa gaman,“ segir Kiddi og ljóst er að um mikið hjartans mál sé að ræða. 

Með gos, sælgæti og tattú 

Í húsinu hans Kidda má finna gos- og sælgætissjálfsalann, gestabók og handvirkan tattúsjálfsala sem nýtur mikilla vinsælda.

„Það er gaman að segja frá því að á Bræðslunni, þá kaupir fólk heilu bunkana af tattúum til að skreyta sig,“ segir Kristinn glaður í bragði. 

Næsta mál að fá posa

Kiddi greinir frá því að næsta skref sé að setja upp posa í sjálfsalann, en segist ekki vita hvenær hann verði kominn upp. 

„Sjálfsalinn stendur undir sér, ég tapa ekki á honum, en ef ég hefði verið með posa þá hefði ég tapað á honum – það er svo dýrt. En myPos, þeir eru jákvæðir þarna úti, þeir hjálpa mér að koma upp posa því þetta er einhver minnsta sjoppa í heimi og þar að auki upp á háheiði.“ 

Bara rétt að byrja 

Sjálfsalinn hans Kidda hefur núna komið fram í erlendu sjónvarpi, þar á meðal tveimur þýskum sjónvarpsþáttum.

„Það gerðist nú bara í gær að þýsk hjón komu til mín, heilsuðu mér með nafni og sögðust hafa séð þetta í þýska sjónvarpinu. Já, já, ég er þekktur út um allt Þýskaland,“ segir Kiddi hlæjandi og bætir við: „Við erum bara rétt að byrja“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert