Fyrirtæki greiði fyrir „flóknar“ umbúðir

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra. mbl.is/Hákon

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, segir að brátt verði tekin upp þrepaskipting sorpvinnslu þannig að þeir sem séu að framleiða flóknari umbúðir eða vörur með tilliti til endurvinnslu muni greiða fyrir það hærra verð. 

 „Það væri mjög æskilegt ef framleiðendur færu í að endurskoða sínar vörur þannig að það verði auðveldara að endurnýta þær,“ segir Guðlaugur Þór.

Ákvörðun sem fyrirtæki þurfa að taka 

„Ef þær væru t.d. bara úr pappa þá væri þetta miklu betra þegar það er hægt. Það er ekki hægt að endurvinna helling af umbúðum og þá verður að brenna þetta með gríðarlegum kostnaði. Þetta þarf ekki að vera svona. Þetta er bara ákvörðun sem fyrirtæki þurfa að taka,“ segir Guðlaugur.

Því flóknari sem umbúðir eru því erfiðara er að endurvinna …
Því flóknari sem umbúðir eru því erfiðara er að endurvinna þær. Friðrik Tryggvason

Bæði ódýrara og betra 

Bendir hann á ýmislegt sem hægt er að gera í þessum efnum. Til að mynda að framleiða umbúðir úr glæru plasti sem og að notast við pappa fremur en annað efni. Hins vegar sé afar vont ef þessu er blandað saman. 

En er þetta ekki spurning um kostnað? Að það sé erfiðara að nota sum efni til að viðhalda gæðum vörunnar?

„Nei, þetta hefur sjaldnast með það að gera. Ef við tökum mjólkurferur sem dæmi. Ef þær væru úr sama efni og þær voru í gamla daga, lausar við plastið, þá væri þetta miklu betra. Bæði ódýrara og betra. En aðal atriðið er að þeir sem menga eiga ekki að geta sent kostnaðinn á aðra,“

Auðveldara er að endurvinna glært plast.
Auðveldara er að endurvinna glært plast. AFP

„Stundum sér maður fyrirtæki sem ætla að vera t.d. bæði með plast og pappa í einhverri viðleitni til að vera umhverfisvænni. En það er ekki betra. Það er verra. Því einfaldari sem framleiðslan er því auðveldar er að endurvinna þetta,“ segir Guðlaugur.

Njóta þess að gera einfalda vöru  

Hann bendir á að þegar þrepaskipting verður tekinn upp muni það þýða meiri kostnað fyrir þá sem framleiða flóknar vörur. „Ef að samkeppnisaðilinn er með einfaldari vöru sem auðveldara er að endurvinna, þá á hann að njóta þess. Af sama skapi þurfa fyrirtæki að borga hærri gjöld eftir því sem erfiðara er að endurvinna þetta,“ segir Guðlaugur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert