Flugvélarflakið selt vegna ágangs ferðamanna

Flugvélarflakið var flutt frá Sauðanesi á Langanesi á Norðausturlandi á …
Flugvélarflakið var flutt frá Sauðanesi á Langanesi á Norðausturlandi á bóndabæ undir Eyjafjöllum. Ljósmynd/Aðsend

Flak af flugvél, sem legið hefur á Sauðanesflugvelli á Langanesi frá því vélinni var brotlent þar árið 1969, hefur verið selt. Flugvélin var flutt hinum megin á landið til nýrra eigenda á föstudaginn.

Flugvélin, sem er af gerðinni Douglas R4D-S, er frá tímum bandaríska setuliðsins á Heiðarfjalli.

Flakið var flutt rúmlega 700 kílómetra leið að Eyvindarholti undir Eyjafjöllum. Svo vill til að vængirnir voru einnig seldir og fluttir undir Eyjafjöllin fyrir rúmlega tveimur áratugum, að sögn Ágústar Marinós Ágústssonar, bónda á Sauðanesi.

Söluferlið á sér langan aðdraganda en þegar Ágúst auglýsti vélina fyrst til sölu vildi Langanesbyggð hafa forkaupsrétt að henni. Hafði sveitarfélagið á annað ár til þess að ganga frá kaupunum, að sögn Ágústar.

„Þegar kom að sölunni vildi sveitarstjórn nýta forkaupsrétt og var það samþykkt en ágreiningur kom upp svo það fór út um þúfur,“ segir Ágúst í samtali við mbl.is og endaði það þannig að vélin var seld suður.

Ljósmynd/Aðsend

Flutingurinn var heljarmál

Ágúst segir að heljarinnar mál hafi verið að flytja vélina suður. 

Nýr eigandi hafði áður komið með þrjá vaska menn með sér og rifu þeir flugvélaflakið í tvennt og skrokkinn ofan af vængjunum, að sögn Ágústs.

Á föstudaginn var verkið klárað og komu tveir „trailerar“ að sunnan með traktor á vagni annars þeirra til þess að sækja flugvélina.

„Ég á tvo traktora með ámoksturstækjum og einn lyftara. Við fórum með tvö tæki á hvorn enda og strengdum stroffur undir og þá gátum við lyft þessu upp og dregið þverbitann undan með einum traktor. Þá gátum við lyft afturendanum á boddýinu upp og bíllinn bakkaði undir,“ segir Ágúst Marinó í samtali við mbl.is.

„Svo þurfti að reisa vængjastykkið upp á rönd þannig að það sem stóð fram úr hreyflunum sneri niður.“

Ágúst segir að farmurinn hafi þá verið orðinn ansi hár, um sex metrar á hæð. Saga hafi þurft af vængnum til að lækka farminn. Samt þurfti að fá undanþágu vegna hæðarinnar til þess að mega flytja vélina.

„Þeir gátu ekki farið Öxi, það er lág raflína þar. Þeir þurftu að fara fyrirfram ákveðna leið þegar þeir voru að keyra suður. Allt gert í samráði við Rarik og Vegagerðina,“ segir Ágúst.

Ljósmynd/Aðsend

80 manns að flakinu á einum degi

Ástæðan fyrir sölunni segir Ágúst hafa verið að ágangur ferðamanna í kringum bú sitt hafi stóraukist á síðustu árum. Mest hefur hann talið um 80 manns á einum degi sem gengu að flakinu.

„Þá var ég í heyskap allan daginn og hafði yfirsýn yfir flakið. Það er ágangur alla mánuði ársins orðið. Margsinnis hafa hópar gengið inn á hálfsprottin tún og grænfóðurakra í leit að leið að flakinu,“ segir Ágúst Marinó.

Hann segir að engum hafi verið bannað að ganga að flakinu eftir flugbrautinni og aldrei hafi verið tekið gjald af ferðamönnum fyrir.

„Við settum upp skilti til að vísa þeim rétta leið. Einnig settum við prívat road á heimreiðina að fjárhúsinu og við það stórlagaðist umgengnin,“ segir Ágúst.

Samræmist ekki rekstri búsins

Í hólfinu við flakið hefur Ágúst látið hryssur kasta. Þar var flugvélin besta skjólið fyrir dýrin og gaf hann þeim þess vegna stutt frá flakinu.

„Ein hryssan kastaði 13. maí og enginn gróður kominn. Þegar folaldið var tveggja daga gamalt komu um 30 ferðamenn þann dag og hryssan stóð úti í horni allan daginn og nýtti sér ekki heyið. Klukkan tíu um kvöldið bað ég tvær franskar stúlkur um að fara nú að hleypa hryssunni í heyið og tóku þær því vel. Það sjá allir sem eitthvað nenna að hugsa að þetta samræmist ekki mínum rekstri og þess vegna losaði ég mig við þetta,“ segir Ágúst.

Hann segist þó hálfsjá eftir flugvélinni enda hafi hún verið fyrir augum hans alla hans tíð. Var hún að sögn Ágústs í raun hans leikvöllur í barnæsku.

„Mamma gamla var dauðfegin að losna við krakkaskarann út í flugvél og smurði nesti handa okkur þegar við fórum í leiðangra þangað svo við entumst þar allan daginn.“

Skildinum stolið

Í september 2016 heimsóttu bandarísku hjónin JoAnne og Russ Sims flugvélina á Sauðanesi, en hann er sonur flugstjórans, Russels W. Sims, sem brotlenti vélinni árið 1969. Tveir voru í vélinni en hvorugan sakaði.

Erindi hjónanna var að festa upp í flugvélarflakinu minningarskjöld um Russel. Með því vill Sims heiðra minningu og hlutverk föður síns í kalda stríðinu, en hann var háttsettur yfirmaður í bandaríska sjóhernum þar sem hann hóf feril sinn aðeins 17 ára gamall.

Morgunblaðið sagði frá þessu á sínum tíma.

„Við hnoðuðum þetta vel á, það var ekkert hægt að ná þessu af nema með kúbeini. Þetta fékk að vera í friði í ríflega ár, þá voru einhverjir túristar búnir að rífa þetta af og fara með þetta,“ segir Ágúst.

„Vélin verður til sýnis fyrir sunnan og hafa sumir sagt að það sé ekkert varið í að sjá hana þar því saga hennar sé hér. Ég segi bara að sagan er ekki búin og hún hefur nú öðlast framhaldslíf. Enda er flutningur vélarinnar þvert yfir landið miklu meira afrek heldur en klaufaskapurinn í flugmönnunum að eyðileggja hana á sínum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert