Aldrei fundist á Íslandi áður

Þetta er elsta mynd sem fundist hefur á Íslandi og …
Þetta er elsta mynd sem fundist hefur á Íslandi og segir Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur að með fundinum lengist íslensk listasaga rækilega í annan endann en steinninn er frá því fyrir landnám. Ljósmynd/Facebook-síða verkefnisins í Stöð

„Þetta köllum við pár. Þetta er algeng mynd á Norðurlöndum sem finnst víða á verslunarstöðum og á gripum úr kumlum og þess háttar,“ segir Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur í samtali við mbl.is um stein með téðu pári sem nýverið fannst undir eldri skálanum í Stöð á Stöðvarfirði þar sem Bjarni hefur lengi vel verið við fornleifarannsóknir og starfar nú þar við níunda mann.

Kveður Bjarni myndina, sem sýnir skip, fljótfærnislegt pár en slíkt finnist víða, á beinum, steinum og timbri. „Pár finnst líka á kirkjum eftir kristnitöku erlendis þannig að þetta er mjög vel þekkt fyrirbæri, að pára upp skip, en þetta hefur aldrei fundist á Íslandi áður,“ segir fornleifafræðingurinn.

Frá fyrri helmingi níundu aldar

Steinninn fannst sem fyrr segir undir eldri skálanum en fyrir þá lesendur sem ekki hafa fylgst með verkefninu þar fyrir austan hefur uppgröftur þar staðið frá árinu 2015 en á minjasvæðinu er að finna stærstu og ríkulegustu skála sem rannsakaðir hafa verið á Íslandi eins og Morgunblaðið greindi frá í samtali við Bjarna í júlí 2021.

Sagði Bjarni þar að uppgröfturinn bæri merki um mikið ríkidæmi og líklegt væri að þangað hefðu komið höfðingjar frá Noregi á ríkulega búnum skipum á löngu horfinni tíð. En aftur að steininum góða og párinu.

„Eldri skálinn liggur undir landnámsskálanum svo þetta er býsna gamalt þótt ég geti ekki tímasett það nákvæmlega,“ heldur Bjarni áfram en blaðamaður nauðar í honum um að minnsta kosti gróflega tímasetningu. „Þetta er frá fyrri helmingi níundu aldar,“ svarar Bjarni og tímasetur steininn því vel fyrir landnám.

Bjarni F. Einarsson segir verkefnið fyrir austan ganga of vel. …
Bjarni F. Einarsson segir verkefnið fyrir austan ganga of vel. Segir hann ljóst að svo mikið sé eftir af spennandi verkefnum í eldri skálanum að hann og hópurinn hans nái ekki að klára í sumar. Ljósmynd/Facebook-síða Bjarna

„Þar með er þetta elsta mynd Íslands, þannig að við erum að lengja listasöguna svolítið líka,“ segir Bjarni glettnislega og heldur áfram að segja frá pári.

„Skip eru tákngervingar víkingaaldarinnar en þau tákna líka ýmislegt annað, eins og væntingar um ríkidæmi, siglingar og hetjudáðir. Við vitum ekki af hverju menn – eða konur – oftast er talið að karlmenn hafi párað, voru að þessu. Af hverju párar fólk yfir höfuð? Til dæmis þegar það situr í leiðinlegum fyrirlestrum. Þegar maður var að tala í símann í gamla daga þá páraði maður og þá getur maður kannski ímyndað sér að menn pári ómeðvitað það sem er efst í huga þeirra,“ segir hann.

Gengur of vel

„Hér uppi á Íslandi situr einhver og er að pára við langeldinn og láta sig dreyma um siglingar og ævintýri og ríkidæmi og svo framvegis. Nema þetta sé táknmynd um siglinguna sjálfa og þann sigur sem í því fólst að komast yfir Atlantshafið,“ segir Bjarni.

En hvernig gengur verkefnið hjá ykkur þarna fyrir austan?

„Það gengur eiginlega of vel skal ég segja þér, það er svolítið vandamál,“ svarar Bjarni og útskýrir svo vandamálið. „Það er sem sagt meira eftir af eldri skálanum en ég bjóst við – sem þýðir að við náum ekki að klára hann í sumar,“ segir hann, „við verðum þá bara að ganga frá þessu fyrir veturinn og taka svo aftur upp þráðinn 1. júní næsta ár.

Uppgröftur í Stöð á Stöðvarfirði hefur staðið yfir frá 2015 …
Uppgröftur í Stöð á Stöðvarfirði hefur staðið yfir frá 2015 og margt merkilegra gripa fundist, nú síðast elsta mynd Íslands. Ljósmynd/Bjarni F. Einarsson

Samstarfsfólk Bjarna er úr ýmsum áttum, tveir nemendur í vettvangsnámi, tveir aðrir nemendur með dágóða reynslu, fornleifafræðingar og aðstoðarmenn, sérfræðingar og einn íslenskur nýdoktor, þetta er valinkunnugt lið,“ segir Bjarni en þrír úr hópnum eru erlendir, annar sérfræðingurinn og einn nemendanna þar af og þar ljúkum við spjalli okkar um elstu mynd sem fundist hefur á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert