Segir nauðsynlegt að standa vörð um lýðheilsu

Alma Möller, landlæknir telur að núverandi sölu fyrirkomulag feli í …
Alma Möller, landlæknir telur að núverandi sölu fyrirkomulag feli í sér ákveðna lýðheilsulega kosti. Samsett mynd

„Oft var þörf, en nú er nauðsyn að standa vörð um lýðheilsu. Við erum nú þegar í vanda við að reka heilbrigðisþjónustu og sá vandi á líklegast eftir að aukast, þannig að við verðum að efla forvarnir og heilsueflingu með öllum tiltækum ráðum,“ segir Alma Möller landlæknir í samtali við mbl.is um tilkomu áfengis í netverslun Costco.

Eins og greint hefur verið frá hóf Costco sölu áfengis í netverslun sinni fyrr í mánuðinum, en fleiri verslanir hafa kosið að fylgja því eftir og margar hverjar hafa þegar hafið undirbúning að sölu áfengis í netverslunum sínum.

Lýðheilsusjónarmið í forgrunni

„Okkar sjónarmið lúta auðvitað að lýðheilsu og við sjáum að það eru allar ástæður sem mæla með því að efla lýðheilsu. Við sjáum þessar áskoranir sem heilbrigðiskerfið stendur nú þegar frammi fyrir,“ segir hún. 

Bætir hún við að heilbrigðiskerfið að óbreyttu ekki sjálfbært og verði að nýta það með hvað skilvirkustum hætti, og efla lýðheilsu með forvörnum og heilsueflingu.

Það að sporna gegn sölu áfengis eru forvarnir því að við vitum að það sem hefur áhrif á áfengisneyslu, eða það sem getur hamlað hana er aðgengi og að halda því í skefjum.“ Segir hún að lýðheilsa lúti að því að auðvelda holla valið og torvelda óholla valið, en aukið aðgengi eigi eftir að ýta undir aukna neyslu meðal almennings.  

Skaðsemi áfengis hefur áhrif á einstaklinga og samfélag

Alma gerir ýtarlega grein fyrir skaðsemi áfengis og ítrekar að það  engin venjuleg neysluvara heldur hafi margvíslegar skaðlegar afleiðingar.

„Það er þessi bráði skaði á heilsu, slys, áfengiseitrun og ofbeldi. En svo er það langvarandi skaði á heilsu. Áfengi getur valdið alveg ótrúlega mörgun sjúkdómum.“ Nefnir hún þar meðal annars fjölmörg krabbamein, hjartasjúkdóma, heilaskemmdir og geðsjúkdóma. 

Við teljum, og ekki bara við heldur líka alþjóðlega heilbrigðismálastofnunin, að það að auka aðgengi að áfengi geti ýtt undir þessa miklu skaðsemi fyrir einstaklinga og fyrir samfélagið,“ segir Alma. 

Tekur hún einnig fram að dæmi séu því til stuðnings að aukið aðgengi ýti undir aukna neyslu, og ekki þurfi að leita langt til þess. Greinir hún frá því að í byrjun áttunda áratugarins hafi Finnland aukið aðgengi að áfengi og í kjölfarið hafi sala aukist til muna, en einnig heilsufarslegar afleiðingar. 

Ástæða fyrir núverandi fyrirkomulagi

„Þetta hefur áhrif á bæði einstaklinga og samfélagið. Að hafa þessa „einokun“, það heftir aðgengi. Það á ekki að vera mikil hagnaðarvon í því að selja áfengi og það borgar sig að vera með taumhald á áfengisauglýsingum og þá fær ríkið eitthvað upp í kostnað vegna heilbrigðis þjónustu. Það eru ákveðnir lýðheilsulegir kostir við þetta fyrirkomulag eins og það er,“ segir Alma. 

Telur hún einnig að mikilvægt sé að setja lagaumgjörð í kringum aðgengi að áfengi og eyða lagalegri óvissu.

„Það sem ég myndi vilja sjá er að sett verði uppfærð stefna í áfengis- og vímuvörnum. Ég myndi vilja biðla til ráðamanna að gefa ekki eftir þessari stöðu sem við þó höfum með þessu fyrirkomulagi. Það þarf auðvitað að eyða þessari lagalegu óvissu en ég myndi líka vilja höfða til samfélagslegrar ábyrgðar þessara fyrirtækja sem eru að hugsa um að útvíkka þessa vefverslun,“ segir Alma.

Ítrekar hún að mikilvægt sé að við setjum okkur stefnu og lögum löggjöfina þannig að hún virki eins og að við viljum að hún geri.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert