Skjálftinn sá stærsti á Reykjanesskaga í ár

Skjálfti að stærð 3,6 reið yfir í Fagradalsfjalli í kvöld. …
Skjálfti að stærð 3,6 reið yfir í Fagradalsfjalli í kvöld. Er það stærsti skjálfti sem hefur mælst á svæðinu það sem af er ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jarðskjálfti af stærðinni 3,6 reið yfir Reykjanesskaga í kvöld klukkan korter í ellefu. Skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur á svæðinu í ár.

Upptök skjálftans voru á um 6,4 km dýpi um 1,8 km austn­orðaust­ur af Fagra­dals­fjalli, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar

Yfir 500 smáskjálftar

Fannst skjálftinn vel á Reykjanesskaganum og höfuðborgarsvæðinu.

Hann er hluti af smáskjálftahrinu sem staðið hefur yfir í Fagradalsfjalli frá klukkan 16 í dag en um 500 smáskjálftar hafa mælst síðan þá, flestir undir 2 að stærð.

Búast má við áframhaldandi jarðskjálftavirkni

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að búast megi við áframhaldandi jarðskjálftavirkni í nótt og jafnvel næstu daga. Þó mælist enginn órói á svæðinu.

Þá segir Elísabet að virknin bendi til innflæðis kviku undir Fagradalsfjalli, en í byrjun apríl fór að mælast landris á svæðinu.

Líkur á því að svæðið sé að vakna á ný

Álíka virkni hefur ekki sést á svæðinu síðan í aðdraganda eldgossins fyrir tæpu ári síðan. „Þetta gæti dáið út en það eru þó ágætar líkur á því að svæðið sé að vakna á ný. Hvort það endar í gosi er erfitt að segja til um.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert