„Þetta er að okkar mati brot á stjórnar­skránni“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir félagið nú kanna allar leiðir sem það getur farið vegna hvalveiðibanns matvælaráðherra. Einn möguleiki sé að þau neyðist til þess að stefna Hval hf. og jafnvel ríkinu.

Vísir greindi fyrst frá.

Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélagsins að þau séu búin að gera allt sem þau geti til þessa. Þar á meðal senda erindi til umboðsmanns Alþingis þar sem lögmæti ákvörðunarinnar er dregið í efa en forsætisráðherra, fjármálaráðherra og háskóla-, atvinnu- og nýsköpunarráðherra hafi fengið afrit af því. Í erindinu var þess krafist að matvælaráðherra myndi draga ákvörðunina til baka eða koma með tillögur um það hvernig bæta mætti starfsmönnum fjárhagstjónið vegna ákvörðunarinnar.

„Síðan erum við að skoða aðra möguleika, einn möguleikinn er sá að við komum til með kannski að þurfa að stefna Hvali vegna þess að þar liggja okkar lögvörðu hagsmunir þar sem ráðningarsambandið liggur á milli Hvals og starfsmanna. Það mun í raun og veru bara styrkja stöðuna sama hvernig það mál færi, ef að við myndum bera sigur úr bítum í slíku máli þá styrkir það stöðu Hvals til þess að fá tjón sitt bætt frá ríkinu. Ef við ekki vinnum það þá munum við að sjálfsögðu skoða það að stefna ríkinu einnig. Þannig við erum bara að velta upp öllum möguleikum með okkar lögmanni,“ segir Vilhjálmur.

Þá þyki þeim óásættanlegt að stjórnvaldsaðgerð sé beitt með þessum hætti svona stuttu áður en vertíð átti að hefjast.

„Þetta er stefnumál Vinstri grænna“

Spurður hvort að verkalýðsfélagið hafi leitt hugann að rökunum um dýravelferð, sem að ráðherra hafi í forgrunni minnisblaðs vegna ákvörðunarinnar sem birt var nú á dögunum, segir hann félagið að sjálfsögðu hafa gert það.

„Það var gerð rannsókn á hvernig tækist að aflífa hvali 2014, þá var nýtingin 84 prósent, það var norskur dýralæknir sem framkvæmdi þá rannsókn. Nú var nýtingin 67 prósent, matvælastofnun reyndar komst að 57 prósent en eftir að þessi norski sérfræðingur gerði athugasemdir við athuganir matvælastofnunar þá var það hækkað upp í 67 prósent. Þannig að það liggur alveg fyrir að þegar þú ert að veiða villt dýr þá verður að segjast alveg eins og er að 84 prósent nýting á því að ná að deyða dýr samstundis, eins og sú rannsókn sýndi í för með sér, að þá allaveganna finnst okkur að það hefði verið tækifæri til þess að gefa Hval færi á því að prófa nýjan búnað sem þeir eru nú þegar tilbúnir með,“ segir Vilhjálmur en málið sé hápólitískt.

„Þetta mál lítur frá okkar bæjardyrum séð þannig að þetta er hápólitískt mál, þetta er stefnumál Vinstri grænna um að banna hvalveiðar og þarna var bara verið að beita þessu pólitíska valdi sem matvælaráðherra hafði í þessu máli, það er okkar mat,“ segir Vilhjálmur.

Grunnskylda að standa með sínum félagsmönnum 

Þá þyki þeim með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skuli leyfa þessu að gerast án athugasemda. Þá sérstaklega í ljósi lögfræðiálita sem liggi fyrir um lögmæti ákvörðunarinnar.

„Við ætlum ekki að gefast upp strax, okkar einlæga von er sú að þessi vertíð gæti farið af stað og það helst strax til að lágmarka það tjón sem starfsmenn verða fyrir. Ég vil ítreka það enn og aftur að hér eru heildartekjur sem nema 1,2 milljörðum hjá þessum 150 starfsmönnum sem starfa hjá Hval í húfi. Þetta eru tekjur sem að eru virkilega góðar yfir þessa hávertíð og það liggur fyrir að fjöldi þeirra sem ætluðu að stunda þessa vertíð voru búin að taka sér frí úr annarri vinnu, segja upp annarri vinnu, leigja frá sér húsnæði og svo framvegis. Svona stjórnsýsla, hún á ekki að þekkjast í íslensku samfélagi þegar eru einungis nokkrar mínútur þar til vertíðin átti að hefjast,“ segir Vilhjálmur.

Hann játar því að félagið sé að velta öllum steinum og gera hvað þau geti.

„[Við] erum núna að íhuga hvernig við getum haldið áfram að verja réttindi okkar félagsmanna, enda er það grunnskylda stéttarfélaganna að standa ætíð vörð með sínum félagsmönnum þegar svona kemur upp. Sama hvort það er varðandi launatap eða atvinnuöryggi. Þetta er að okkar mati brot á stjórnarskránni, 75. greininni um atvinnufrelsi launafólks. Og ég bara ítreka það bara enn og aftur að mér finnst það alveg með ólíkindum að það skuli vera að gerast á vakt Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna,“ segir Vilhjálmur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert