Lognið á undan storminum

Þorvaldur Þórðarson hefur góð ráð til þeirra sem ætla að …
Þorvaldur Þórðarson hefur góð ráð til þeirra sem ætla að ganga um óróasvæðið. mbl.is/Eyþór Árnason

Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, telur rólegheitin núna á Reykjanesskaganum líklegast vera lognið á undan storminum. Atburðarásin sé þekkt frá gosunum 2021 og 2022.

Skjálftavirknin á svæðinu er enn viðvarandi en hefur þó minnkað, sem getur merkt að skjálftarnir eigi sér stað mjög ofarlega í skorpunni. Erfitt er að staðsetja þá þegar þeir eru komnir svona grunnt.

Gosið mun koma af meiri krafti en áður

Þorvaldur bendir á að innflæðið í kvikuganginn nú sé helmingi meiri en var í gosinu 2021. Það geti þýtt að yfirþrýstingurinn á kvikunni sem er að leita til yfirborðs geti verið töluvert meiri.

„Það getur þýtt að hraunið komi mun hraðar upp en við höfum séð í fyrri gosum, með hærri kvikustrók og hraðara hraunrennsli. Aflið verður því heldur meira en við höfum séð í fyrri gosunum. Þá er nú gott að vera ekki alltof nærri.“

Heilræði til ferðalanga

Þorvaldur segist ekki vera á móti því að fólk noti góða veðrið til þess að ganga um svæðið í kringum Fagradalsfjall og Keili en bendir á nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

Í fyrsta lagi sé ekki skynsamlegt að ganga beint yfir mesta skjálftasvæðið. Greini fólk viðvarandi titring jarðar sé best að forða sér. Þá er senn komið að gosi, og er sá órói ólíkur öðrum sneggri og styttri jarðhræringum.

Greini fólk reyk koma upp úr sprungum þar sem hann hefur ekki sést áður eða sér gufu rísa, þá er líka gott að koma sér á brott. Vatn byrjar að leysast úr kviku á 100 til 300 metra dýpi, sem þýðir að ekki er mikið sem skilur á milli vegfaranda og kvikunnar.

Þorvaldur telur nokkuð líklegt að næsta gos komi upp af töluverðu afli og að hraunrennsli verði mikið í upphafi. Það fari svo ekki endilega mjög langa vegalengd eða á að giska einn til tvo kílómetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert