Ný slökkvistöð opnuð í Flatey

Margt var um manninn þegar slökkvistöðin Hólsbúð opnaði á Flatey …
Margt var um manninn þegar slökkvistöðin Hólsbúð opnaði á Flatey í gær. Ljósmynd/Hermann Þór Snorrason

Ný slökkvistöð, sem fengið hefur nafnið Hólsbúð, var tekin í gagnið í Flatey við fjölmenna og hátíðlega athöfn í gær. Heimir Sigurðsson, formaður Flateyjarveitna, segir tilkomu Hólsbúðar mikinn og merkan áfanga í almannavörnum Flateyjar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Flateyjarveitum.

Slökkvistöðin er 85 fermetra trégrindarhús þar sem hægt er að finna ýmsan bráðabúnað. Þar er til dæmis dráttarvél og haugsuga sem inniheldur 5.000 lítra af vatni. Tækin eru tilbúin til notkunar, en þau voru gjöf frá afkomendum hjónanna í Bentshúsi.  

Nýja slökkvistöðin er búin bæði dráttarvél og haugsugu.
Nýja slökkvistöðin er búin bæði dráttarvél og haugsugu. Ljósmynd/Hermann Þór Snorrason

Flateyjarveitur og Framfarafélag Flateyjar sáu um byggingu hússins í samvinnu við Reykhólahrepp. Þorvarður Lárus Björgvinsson hjá ARKÍS hannaði húsið og byggingastjóri var Baldur Þorleifsson húsasmíðameistari.

Yfir 200 manns í Flatey á sumrin

„Verkefnið er samfélagsmál okkar sem hér eigum hús, dveljum til skemmri eða lengri tíma eða höfum fasta búsetu,“ er haft eftir Heimi í fréttatilkynningu Flateyjarveitna. „Hér er dvalið og búið í um 35 húsum og í Flatey eru oft um og yfir 200 manns á sumrin. Í öllum húsum eru slökkvitæki auk þess að við höfum komið fyrir 6 brunahönum í þorpinu sem nýtast sem fyrstu bjargir.“

Í tilkynningunni kemur einnig fram að með nýju slökkvistöðinni séu nú komnar forsendur til að bregðast fyrr við en ella ef hætta steðji að á svæðinu. Þá sé mikilvægt að tengja saman brunavarnaráætlun Reykhólahrepps og viðbragðsáætlun í Flatey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert