Strokulaxar jafn margir og hrygningarstofn

Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun segir lagt af stað með …
Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun segir lagt af stað með góða meiningu í frumvarpi um lagareldi en reynslan leiði í ljós hvernig til tekst með framkvæmdina. Samsett mynd

Samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar var stærð hrygningarstofns villta laxins við Ísland um tuttugu þúsund fiskar í haust, að afloknum veiðitíma. Það er einn minnsti hrygningarstofn sem mælst hefur og töluvert undir meðaltali aftur til ársins 1971, sem er tæpir fjörutíu þúsund laxar. Stofnunin kynnti þetta mat sitt á aðalfundi Landssambands Veiðifélaga sem haldinn var í Húsafelli síðari hluta aprílmánaðar. Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun staðfesti þetta mat í samtali við Sporðaköst og bætti við. „Við töldum þá ekki en þetta er okkar mat að gefnum ákveðnum forsendum,“ upplýsti Guðni.

Metinn hrygningarstofn villta laxins er græna lína. Síðastliðið haust um …
Metinn hrygningarstofn villta laxins er græna lína. Síðastliðið haust um 20 þúsund fiskar. Meðaltal áranna er sýnt með brotnu línunum. Bláa línan er heildar ganga og sú appelsínugula afli. Línurit/Hafrannsóknastofnun

En hvernig líst Guðna á nýtt frumvarp um fiskeldi í sjó, sem nú er í meðförum þingsins?

„Það er eins og alltaf er, þegar menn leggja af stað með góða meiningu. Það á eftir að koma í ljós hvernig til tekst með framkvæmdina. Það er verið að bæta í og auka heimildir eftirlitsaðila. Það er verið að auka ábyrgð eldisaðilanna sjálfra. Það er verið að setja inn refsiákvæði í lögin. Langtímareynslan frá öðrum löndum er að sýna að hátt í einn fiskur á hvert framleitt tonn er að sleppa úr sjókvíum. Reynslan hér, á Vestfjörðum held ég að sé 0,54 fiskar sem tilkynnt hefur verið um af fyrirtækjunum sjálfum,“ segir Guðni í samtali við Sporðaköst.

Hann segir jákvætt í alla staði, bæði fyrir greinina og hið villta umhverfi að verið sé að uppfæra regluverkið í kringum sjókvíaeldi. Hann bætir við. „Hversu langt það dugar til veit ég ekki og það á eftir að koma í ljós. En reynslan sýnir að þegar fiskar eru í netpokum í sjó að þá er alltaf ákveðin áhætta til staðar.“

Mögnuð sjón. Lax í gjúfrunum í Laxá í Kjós í …
Mögnuð sjón. Lax í gjúfrunum í Laxá í Kjós í fyrra. Að afloknum veiðitíma voru um tuttugu þúsund villtir laxar í íslenskum ám að undirbúa hrygningu. Það er sami fjöldi og sleppur úr sjókvíum, að meðaltali, árlega miðað við þær tölur sem eldisfyrirtækin gefa upp. Ljósmynd/Laxá í Kjós

Hlutfallið í Noregi hefur verið að lækka, það er hlutfall strokulaxa miðað við hvert framleitt tonn af laxi. Síðustu ár er hlutfallið talið vera í kringum 0,3 lax á hvert tonn. Þar hefur verið hert á reglum en á sama tíma getur slíkt virkað sem hvati til að segja ekki frá sleppingum. Rétt er að hafa í huga að hlutfallið einn lax eða 0,54 er tölfræði og byggir á meðaltali. 

Framleiðsla á laxi í sjókvíum við Íslandi stefnir í ríflega fjörutíu þúsund tonn í ár og uppi eru hugmyndir um að auka framleiðsluna verulega. Jafnvel meira en að tvöfalda hana.

Miðað við mat ykkar á hrygningarstofninum, um tuttugu þúsund fiskar í haust sem leið, þá getum við átt von á að tvöfalt fleiri laxar sleppi úr sjókvíum árlega?

„Já. Ef að við lendum í sömu tölfræði og við höfum verið að sjá í öðrum löndum. En þetta hlutfall hefur verið lækkandi í Noregi vegna betri búnaðar og meira aðhalds. Við höfum verið í hlutfallinu 0,54 per framleitt tonn þegar miðað er við tilkynnt strok á Vestfjörðum. Og miðað við það þá erum við í svipaðri tölu og heildar hrygningarstofninn, já.“

Þetta er galin staða.

„Þín orð.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert