Óhjákvæmilegt að grípa fyrr inn í

„Vegna þessara fyrri gosa er búið að vera gríðarlegt álag …
„Vegna þessara fyrri gosa er búið að vera gríðarlegt álag á björgunarsveitirnar.“ Samsett mynd

„Ég held það sé óhjákvæmilegt annað en að við grípum fyrr inn í heldur en við gerðum við fyrri gos,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, spurð út í hvort ríkið hyggist koma til móts við björgunarsveitir á Suðurnesjum vegna eldgossins sem hófst við Litla-Hrút fyrr í dag. Nefnir hún til að mynda landverði í því samhengi.

„Vegna þessara fyrri gosa er búið að vera gríðarlegt álag á björgunarsveitirnar. Og ég vil líka benda á það að núna erum við á hápunkti ferðamannasumarsins hér þannig að það er gríðarlega mikið álag á viðbragðsaðilum hringinn í kringum landið. Fólk hefur yfir sig mikið að gera við að aðstoða ferðamenn. Þetta verður þá mikil viðbót við það og það verður mjög krefjandi fyrir fólk að sinna og tryggja öryggi fólks á svæðinu.“

Biðlar hún til fólks að vera ekki á ferðinni á svæðinu. „Allavega núna ekki til að byrja með meðan við erum að sjá hvernig þetta er að þróast. Það er gríðarleg gasmengun þannig að það er ekki hættulaust að vera á þessum slóðum. Við skulum heldur þá ekki setja viðbragðsaðila í hættu vegna þess að við förum ekki nógu varlega við borgararnir.

Spurð út í frekara viðbragð vegna eldgossins segir Guðrún að frekari aðgerðir verði m.a. ræddar á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn.

„Þá munum við líka vita meira um gosið og hvernig það er að þróast og hvernig það er að hegða sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert