„Erfitt að sjá hvað útlendingurinn er að hugsa“

Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs, segist strax sjá bókunum fjölga í þyrluflug í kjölfar eldgossins við Litla-Hrút. Bókanirnar hrannist aftur á móti ekki eins hratt inn og hefur gerst síðustu tvö ár.

Þegar eldgos hófst í Meradölum árið 2022 var eftirfarandi haft eftir Birgi í viðtali við mbl.is: „Við erum svo mikið á hvolfi að ég ætti eig­in­lega ekki að vera að ræða við þig, það er svo mikið að gera að það er al­gjört brjálæði.“

En nú er tíðin önnur. „Við sjáum að það er náttúrulega aukning en það virðist hins vegar vera meiri ró yfir þessu núna heldur en 2021 og 2022,“ segir Birgir Ómar.

Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs.
Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs. Eggert Jóhannesson

Voru þegar þétt bókuð

„Við höfum verið þétt bókuð vegna þess að ferðavertíðin er núna í hámarki í júlí og ágúst,“ segir Birgir. „En við höfum geta skotið inn ferðum öðru hvoru, þannig við náum nú að gera eitthvað.“

Hann segir flestar bókanir í útsýnisferðir yfir gosstöðvarnar koma frá Íslendingum en að ferðamenn gangi frekar að gossvæðinu.

„Árið 2021 var gríðarlega mikið af Íslendingum sem fór á svæðið. Það sama gerðist 2022. Sá hópur er mun rólegri núna en gerðist seinustu tvö gos og ferðamenn hafa verið duglegri að labba. Það er erfitt að sjá hvað útlendingurinn er að hugsa.“

Þessi fagurbláa „EC130“ þyrla Norðurflugs fór ófáar ferðir yfir eldgosið …
Þessi fagurbláa „EC130“ þyrla Norðurflugs fór ófáar ferðir yfir eldgosið í Geldingadölum árið 2021. Ljósmynd/Benjamin Hardman

„Kemur kannski bara aftur á næsta ári“

Jarðvísindamenn hafa sagt að nýtt gostímabil sé hafið á Reykjanesskaganum. 

Birgir veltir því upp hvort fólk sé almennt rólegra yfir þessu eldgosi þar sem möguleiki sé á að það gjósi hugsanlega hvort eð er aftur.

„Fyrsta gosið dugði í nokkra mánuði en það næsta í nokkra daga eða slíkt,“ segir hann. „Fólk er kannski aðeins farið að venja sig á þetta – þetta kemur kannski bara aftur á næsta ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert