Gossprungan þrefalt lengri en í fyrra

Gossprungan við Litla-Hrút var 900 metra löng í upphafi og …
Gossprungan við Litla-Hrút var 900 metra löng í upphafi og því þrefalt lengri en í gosinu í Meradölum. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður segir að mikill kraftur í upphafi eldgossins við Litla-Hrút á Reykjanesskaga hafi ekki komið á óvart. Hratt hafi dregið úr afli gossins og óvissa ríki um hve lengi það geti staðið yfir.

Hann segir þróun eldgossins ekki ósvipaða gosinu í Meradölum í fyrra, sem hófst á 300 metra langri sprungu og dróst svo fljótt saman. Mesta virknin í fyrra hafi verið í kringum miðju gossprungunnar. Gossprungan við Litla-Hrút var 900 metra löng í upphafi og því þrefalt lengri en í gosinu í Meradölum.

„Það er í raun og veru engin leið að segja hvernig þetta fer, hvort þetta verði stutt og bara á einum stað eða hvort það taki sig upp annars staðar,“ segir Ari Trausti í samtali við mbl.is og bætir við að gosið gæti jafnvel staðið yfir í marga mánuði líkt og gosið í Geldingadölum árið 2021.

Þá sé mögulegt að gossprunga komi upp annars staðar lengra norðaustur úr sama kvikuganginum. „En það getur líka dregið frekar hratt úr gosinu og það stöðvast.“

Meiri gasmengun vegna aukins hraunflæðis

„Það sem kemur ekki á óvart er að gosstöðvarnar eru að færa sig lengra og lengra norðaustur. Það er ekki óþekkt að sprungugos í syrpu færi sig á þann hátt.“

Verulega hefur dregið úr afli og framleiðni gossins síðan það hófst í gær. Spurður hvort það gæti aukist á ný segir Ari Trausti það vera mögulegt og vísar til gossins í Geldingadölum.

„Fyrst byrjaði þetta á einum stað í Geldingadölum og varði þar í einhverjar vikur en svo fóru gossprungur að opnast lengra í norðaustur. Þetta urðu alls fimm atburðir þar sem gossprungur opnuðust og ein af þessum nýju varð að aðalgígnum. Þannig að það er ekki hægt að útiloka að það komi fram gossprunga einhvers staðar á þessum slóðum.“

Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður.
Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umtalsvert meiri gasmengun hefur verið frá gosinu við Litla-Hrút en í fyrri eldsumbrotum, einkum í upphafinu. Ari Trausti segir ástæðuna hafa verið mikið hraunflæði.

„Því meira hraun sem kemur upp á hverri sekúndu þeim mun meiri er gasmengunin. Fyrsta gossprungan í Geldingadölum var 200 metra löng og í Meradölum 300 metra löng. Þessi var lengri og miklu meira hraunflæði í upphafsfasanum og þá varð meiri gasmengun. Nú hefur dregið úr henni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert