Ágætis veður til að skoða gosstöðvarnar í dag

Þurrt, bjart og milt veður með stinningsgolu eða kalda verður …
Þurrt, bjart og milt veður með stinningsgolu eða kalda verður í dag sem hjálpar til við að blása gasinu við gosstöðvarnar burt mbl.is/Kristinn Magnússon

Líklega verður ágætis veður til þess að virða fyrir sér gosstöðvarnar í dag, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Með morgninum bætir heldur í vind, víða norðlæg átt og 8-13 m/s eftir hádegi. Hægari vindur verður á Suðurlandi og í innsveitum norðaustan- og austanlands.

Um norðanvert landið verður skýjað með köflum og víða dálítil væta, hiti 5-10 stig.

Syðra verður þurrt og bjart, hiti allt að 18 stigum en líkur á skúrum suðaustan til.

„Það er því líklega ágætis veður til þess að virða fyrir sér gosstöðvarnar í dag. Þurrt, bjart og milt veður með stinningsgolu eða kalda til þess að blása gasinu burt, að því gefnu að gasstraumurinn liggur ekki yfir gönguleiðina,“ segir í hugleiðingunum.

Rigning á norðanverðu landinu

Á morgun verður norðan- og norðvestanátt 8-15 m/s. Sums staðar verður hvassara í vindstrengjum við fjöll, sérstaklega annað kvöld.

Þá rignir um norðanvert landið og verður svalt í veðri, en áfram þurrt og bjart syðra og milt að deginum.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert