Berfættur við gosstöðvarnar

mbl.is/Hákon

 „Þetta er bara æðislegt,“ sagði Guðjón Páll Ómarsson, sem gekk berfættur í átt að eldgosinu við Litla-Hrút þegar blaðamann mbl.is bar að garði í dag. 

Guðjón var einn þeirra mörgu sem gengu að gosstöðvunum en stríður straumur fólks hefur legið þangað frá því í morgun. Var fólk almennt vel búið og flestir klæddir eftir veðri.

Mosa­bruni í kringum hraunið setti þó svip sinn á gönguna en af honum stafaði töluverður reykur.

Margir lögðu leið sína að eldstöðvunum við Litla-Hrút í dag.
Margir lögðu leið sína að eldstöðvunum við Litla-Hrút í dag. mbl.is/Hákon

Gekk berfættur yfir mosabreiðuna

Guðjón lét reykinn, sem lá meðfram stórum hluta gönguleiðarinnar, þó ekki á sig fá og lagði galvaskur í gönguna að eldstöðvunum. 

Hann skar sig þó úr hópi göngugarpanna, sem flestir voru íklæddir göngu- eða íþróttaskóm, að því leyti að hann var berfættur. Vakti þetta athygli blaðamanns.

Er einhver ástæða fyrir því að þú ert berfættur?

„Ég fæddist berfættur og hef ekki hitt neinn sem fæddist í skóm. Ég nýti hvert tækifæri til að vera ekki í skóm. Undirlagið hér er fullkomið, mosinn góður og steinarnir ekki svo beittir,“ segir Guðjón og bætir við að hann sé þó með skó í töskunni. 

„Ég fer í þá þegar ég kem aftur á malarveginn. En ég reyni að vera berfættur þegar ég get. Þetta er mjög næs. Mosi og mold.“

Leiðin að gosinu er tæpir 10 kílómetrar.
Leiðin að gosinu er tæpir 10 kílómetrar. mbl.is/Hákon

Lungun og hjartað í lagi

Spurður út í loftgæðin og mögulega gasmengun segir Guðjón að hann hafi ekki of miklar áhyggjur af því. „Loftið er ferskt inn á milli og svo alveg hræðilegt. En útsýnið er fallegt og þetta er alveg þess virði.“

Hann bætir við. „Lungun eru í lagi og það er hjartað líka.“

Hvernig lýst þér á mannfjöldann? Varstu að búast við að sjá svona mikinn fjölda af fólki?

„Já og nei. Ég vissi nú eiginlega ekkert hverju ég ætti að búast við. Ég heyrði að margir ætluðu hingað og ég skil það vel. Þetta er stórkostlegt að sjá.“

Heldurðu að þú komir hingað aftur í sumar ef gosið varir eitthvað áfram?

„Það getur vel verið. Þetta er frábær afsökun til að fara út í göngutúr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert