Drónum flogið í veg fyrir þyrlu Gæslunnar

Flugstjóri Gæslunnar þurfti að beygja undan tveimur drónum í gær.
Flugstjóri Gæslunnar þurfti að beygja undan tveimur drónum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Tveimur drónum var flogið í veg fyrir þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvunum við Litla-Hrút í gær. Flugstjóri þyrlunnar beygði frá þeim og sakaði engan að sögn Georgs Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar.

„Ef það verður árekstur milli dróna og þyrlu getur það orðið alvarlegt,“ segir Georg, og bætir við að Gæslan sé á móti því að drónum sé hleypt inn á gossvæðið.

Drónaflug á svæðinu er heimilt en óheimilt er að fljúga drónum ofar en í 120 metra hæð. Þá ber drónum að víkja þegar þyrlur eru í flugtaki og lendingu.

Búin undir að þurfa að sækja fólk

Spurður hvort hann geri ráð fyrir því að Gæslan muni sinna verkefnum á gosstöðvunum svarar hann játandi.

„Við erum undir það búin og gerum ráð fyrir að að því komi. Þetta er náttúrulega bara sólarhringur númer tvö,“ segir Georg en í fyrra þurfti oftar en einu sinni að sækja örmagna göngufólk á gosstöðvarnar. 

Gæslan hefur þrjár þyrlur til afnota og sex áhafnir en að sögn Georgs er ávallt miðað við að hafa tvær þyrlur lausar í verkefni. Þá er TF-SIF einnig klár í verkefni komi til þess.

Hafið þið verið að kortleggja svæðið, upp á hvar best sé að lenda?

„Menn hafa verið að því í gær og fyrradag. Finna út hverjar eru heppilegustu leiðirnar miðað við vindátt, vegi, fólksfjölda og annað. Það er ætlunin að gera það í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert