„Enginn að hugsa um varnargarða núna“

Magnús­ Tumi Guðmunds­son­, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands.
Magnús­ Tumi Guðmunds­son­, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands. Samsett mynd

„Það er býsna vel staðsett útfrá mögulegri hættu fyrir innviði og annað,“ segir Magnús­ Tumi Guðmunds­son­, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, spurður út í stöðu hraunflæðis eldgossins við Litla-Hrút.

Síðdegis í dag funduðu almannavarnir um stöðuna á gossvæðinu. Magnús Tumi segir í samtali við mbl.is að þar hafi gefist góður tími til þess að stöðuna, aðdragandann, jarðskjálftavirkni og eftirfylgni með gosinu og hrauninu. 

Hann segir að staðan í dag sé mjög svipuð og í gær. 

„Gosið virðist ekki vera að breytast mikið og hraunstraumurinn rennur til suðurs og stefnir í átt að Meradölum. Það virðist vera nokkuð stöðug virkni.“

Hann segir að byrjun þessa eldgoss sé mjög lík virkninni í eldgosinu sem var í fyrra þó að byrjunar fasinn hafi verið töluvert öflugari. Hraunflæði fyrstu klukkutíma þessa goss var miklu meira en þá. 

„Síðan hefur það lækkað og er núna líkt því þegar mest var í langa gosinu árið 2021.“

Í takt við fyrri gos

Magnús Tumi segir að um einn gíg sé að ræða, um 50 til 100 metrar, og einn staður þar sem kvikan streymir upp úr.  

„Ef þetta heldur áfram í dálítinn tíma þá getur hlaðist þarna upp myndarlegur gígur. En það skiptir líka máli hversu stöðugt þetta gos verður. Því stöðugra sem það verður því minni læti en þá nær hraunið kannski að teygja sig heldur lengra,“ segir hann og nefnir óstöðugleika gossins 2021 er gosið hætti nokkrum sinnum og hraunið rann skemmra.

Eldgosið við Litla-Hrút.
Eldgosið við Litla-Hrút. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vitum náttúrulega ekki neitt hvað þetta gos ætlar að standa yfir eða hvernig það mun þróast.“

Magnús Tumi segir gosið þó í takt við fyrri eldgosin. 

„Hegðun þess er mjög svipuð og í gosinu í fyrra.“

Þannig að þetta gæti staðið yfir í nokkrar vikur eða jafnvel mánuði?

„Það má vel vera en er ómögulegt að segja á þessum tímapunkti.“

Ólíklegt að hraun flæði yfir innviði

Magnús Tumi segir afar ólíklegt að hraunið flæði yfir innviði. Margir kílómetrar séu í næsta ljósleiðara og Suðurstrandaveg. 

„Það er býsna langur vegur þangað, sjö til níu kílómetrar allavega þangað niður eftir. Flest hraun á skaganum eru mikli styttri en það. Þetta eru ekki mjög stór gos á skaganum.“

Hann segir þó að menn þurfi að vera meira vakandi yfir gosum, líkt og þessu, heldur en eldgosum á hálendinu, vegna návistar við byggð. 

Komu varnargarðar til tals á fundinum?

„Það er enginn að hugsa um varnargarða núna. Ef þetta verður svona þá eru margir mánuðir í að eitthvað fari að komast niður að Suðurstrandaveg.“

Magnús segir að mælingar séu hafnar á hraunflæði og slíku. „Þær munu hjálpa okkur – ef þetta heldur áfram í einhvern tíma – að meta líklegt framhald.“

Hann minnist á að lokum að því verði nóg að gera hjá jarðvísindafólki á næstu vikum og mánuðum. 

Jarðvísindafólk við hraunið.
Jarðvísindafólk við hraunið. mbl.is/Kristófer Liljar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert