Glæfraleg hegðun við eldgosið

Fjölskyldan áttaði sig ekki á hættunni við það að stíga …
Fjölskyldan áttaði sig ekki á hættunni við það að stíga upp á hraunhrygginn í þessari miklu nálægð við eldspúandi gíginn. mbl.is/Hákon

Mikill reykur vegna mosabruna var við eldstöðvarnar í dag. Óðu margir í gegnum reykinn til þess að komast nær eldgosinu.

Hegðun sumra var glæfraleg og hættu þeir sér jafnvel upp á nýmótaðan hraunhygginn, meðal annars í þeim tilgangi að ná góðum ljósmyndum af sjálfum sér og eldgosinu.

Sjá mátti fólk sem fór með börn sín upp á hraunið. Það kann að virðast hættulaust en er þó sjóðandi heitt undir yfirborðinu enda ennþá í mótun. Getur slík hegðun reynst lífshættuleg.

Reykur vegna mosabruna var mikill við gosstöðvarnar í dag.
Reykur vegna mosabruna var mikill við gosstöðvarnar í dag. mbl.is/Hákon

Áttuðu sig ekki á hættunni

Frönsk fjölskylda með tvo unga drengi sem mbl.is ræddi við sagði gönguna upp að gosinu hafa verið erfiða en engu síður þess virði. Þau vildu ekki láta tækifærið til að sjá eldgosið renna sér úr greipum, enda byðist það varla oftar en einu sinni á lífsleiðinni. 

Þegar blaðamaður benti þeim á hve hættulegt það væri að fara upp á hraunhrygginn sögðust þau strax sjá eftir því. Þau áttuðu sig ekki á hættunni og hefðu viljað fá betri leiðbeiningar.

„Maður upplifir sig frjálsan“

„Við vitum samt að við erum hér á eigin ábyrgð. Það er enginn á svæðinu núna til þess að gæta að öryggi fólks eða leiðbeina manni og maður upplifir sig þess vegna frjálsan. Maður tekur áhættu og gerir mistök,“ sagði fjölskyldufaðirinn. 

Eldgosið við Litla-Hrút er mikið sjónarspil. Þá fóru nokkrir óvarlega …
Eldgosið við Litla-Hrút er mikið sjónarspil. Þá fóru nokkrir óvarlega og hættu sér upp á nýmótað hraunið úr bullsjóðandi gosstöðvunum. mbl.is/Hákon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert