Fór að gosinu rétt fyrir lokun: „Einstök upplifun“

Michael, ferðamaður frá Póllandi, fór að eldgosinu við Litla-Hrút í …
Michael, ferðamaður frá Póllandi, fór að eldgosinu við Litla-Hrút í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Michael frá Póllandi kom til Íslands í gær og gerði sér strax ferð að eldgosinu við Litla-Hrút á Reykjanesskaga.

Hann segist heppinn að hafa náð að berja eldgosið augum þar sem hann var á leið til baka á tjaldsvæðið í Grindavík þegar ákvörðun var tekin um að loka gönguleiðinni að gosstöðvunum.

„Við vorum ótrúlega heppin af því að við fengum smáskilaboð þegar við komum aftur á tjaldsvæðið um að það væri búið að loka,“ segir Michael í samtali við mbl.is.

Gönguleiðinni að gosstöðvunum hefur verið lokað fram á laugardag til að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila. Mik­il meng­un er á svæðinu, ekki síst vegna gróðurelda.

Villtust fyrst af leið

Michael segir það hafa verið einstakt að sjá eldgosið. Hann er hluti af 22 manna gönguhópi frá Póllandi sem ætlar að ferðast um Ísland næstu tvær vikurnar.

„Þetta var í fyrsta sinn sem flest okkar höfðum séð virkt eldfjall. Þetta var einstök upplifun.“

Gönguleiðinni að gosstöðvunum hefur verið lokað fram á laugardag til …
Gönguleiðinni að gosstöðvunum hefur verið lokað fram á laugardag til að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópurinn var vel undirbúinn fyrir gönguna að gosinu en villtist þó af leið í fyrstu.

„Við fórum vitlausa leið í upphafi. En við snerum við og fylgdum fólki sem var að fara rétta leið og við náðum þá að sjá gosið,“ segir hann.

„Við vorum með myndavélar og ég reyndi líka að setja drónann minn á loft en það var of hvasst til þess.“

Frá Grindavík í dag.
Frá Grindavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert