Gæti flætt út úr Meradölum á 4 til 6 dögum

Gamla hraunið er allt komið undir það nýja.
Gamla hraunið er allt komið undir það nýja. mbl.is/Árni Sæberg

Hraunflæðið í eldgosinu við Litla-Hrút hefur sveiflast til og frá en virknin í gígunum er þó nokkuð óbreytt. Þannig er framleiðnin nokkuð stöðug eða um 10 rúmmetrar á sekúndu. 

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir tvær hugsanlegar skýringar vera á þessum sveiflum. Annaðhvort hafi innri farvegir þróast í hrauninu sem séu ekki sjáanlegir og hluti hraunflæðisins leiti þangað, eða þá að kvika hafi verið að safnast saman á ákveðnum svæðum. 

Ferðast 200 metra á sólarhring

Aðalvaxtarjaðarinn í þessu gosi er í Meradölum og er hraunið á sæmilega góðri ferð inn í Meradali, eða um 200 metra á sólarhring. „Ef þú skoðar bara upptökur úr vefmyndavél mbl.is frá því snemma í morgun þá glittir í hraunið frá 2021, en nú er það alveg horfið. Þetta gerist mjög hratt þarna.“

Aðrir vaxtarjarðar á hinum hraunbörnunum breikka líka og er ágætis gangur á þeim, þó ekki til jafns við þann í Meradölum. 

Hugsanlega 4 til 6 daga að fylla Meradali

Þorvaldur bendir á að ef hraunflæðið helst óbreytt þá sé hugsanlegt að það taki ekki nema 4 til 6 daga fyrir hraunið að flæða út úr Meradölum.

Ef hraunið breytir aftur á móti um stefnu og tekur að flæða meira í suðurátt þá er sú vegalengd talsvert lengri og tæki það þá 10 til 15 daga fyrir hraunið að brjótast út úr Meradölum. 

Komist hraunið út úr Meradölum er nokkuð greið leið niður að Suðurstrandarvegi að sögn Þorvaldar, og því eru það þeir innviðir sem mestar áhyggjur eru af um þessar mundir.

Varðandi gosvirknina telur Þorvaldur að „við munum sjá þetta malla svona áfram“. Ekkert bendi til þess að það muni draga úr virkninni á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert