Slæmt að missa gróðurelda yfir byggð

Einar Sveinn slökkviliðsstjóri við gosstöðvarnar í dag.
Einar Sveinn slökkviliðsstjóri við gosstöðvarnar í dag. mbl.is/Hákon

„Mesti akkur minn í þessu mosastríði er að ef undan snýst þá gæti þetta farið yfir byggð. Það er ekkert svo langt í Vogana eða Grindavíkurbæ, við viljum náttúrulega ekki fá þetta yfir byggð. Þá þarf að fara í alls konar varnir. Loka gluggum, fólk þarf að hætta að vera úti. Við viljum ekkert missa þetta inn og leggjum þunga áherslu á það að stoppa þetta áður en við missum þetta.“

Þetta segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri Grindavíkurbæjar, sem sinnir nú slökkvistörfum við gosstöðvarnar við Litla-Hrút ásamt vöskum viðbragðsaðilum. 

Mikil mengun fylgir gróðureldunum.
Mikil mengun fylgir gróðureldunum. mbl.is/Hákon

Aðspurður kveðst hann hafa fengið öll þau tæki sem honum langaði í en bætir þó við: „[N]ema mig langaði í flugvél. Við erum ekki kominn á þann tímapunkt að fljúga til landsins vél til þess að slökkva þetta. Slökkvilið Grindavíkur er með það góðan mannskap að við teljum okkur ráða við þetta með hjálp öflugra manna.“

Allir reiðubúnir 

Hann segir hjálp hafa borist víða að, þar á meðal frá slökkviliði Árnessýslu og Suðurnesjum.

„Það hafa nú verið einn og einn að koma frá utanaðkomandi liði sem hafa verið í sumarfríum en frétta af verkefninu og suða um að fá að koma. Vilja taka þátt. Það eru þannig týpur sem veljast í störf slökkviliðsfólks. Fólk er alltaf til í að koma. Þessi stétt er ekki það stór að menn standa saman. Ég hef ekki lent í því að það er vandamál að manna. Ég er með 23 manna slökkvilið og við erum á degi fjögur í „non-stop“ aðgerðum og það tók mig sennilega fjórar mínútur að manna mínar stöður seint í gærkvöldi. Menn eru til í hasar.“

Frá gosstöðvunum í dag.
Frá gosstöðvunum í dag. mbl.is/Hákon

Hann segir slökkviliðið aldrei hafa þurft að glíma við gróðurelda af þessari stærðargráðu, enda ekki mikið um trjágróður í kringum Grindavíkurbæ. 

„En svona gróðureldaverkefni af svona stærðargráðu er nýtt. Við höfum myndað töluverða reynslu í þessu núna og að finna upp verklag sem er að virka því aðgengið, eins og við sjáum, er ekki gott. Þetta mun nýtast til framtíðar,“ segir Einar og bætir við: „Það er meiri gróður hér heldur en í síðustu tveimur eldgosum. Þetta eru afleiðingar af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert