Áhugamál stunduð við gosið

Áhugamenn um eldgosið koma vel búnir að gosstöðvunum.
Áhugamenn um eldgosið koma vel búnir að gosstöðvunum. mbl.is/Hákon

Margt er um manninn við gosstöðvarnar í dag og virðist mikill meirihluti vera erlendir ferðamenn. Margir mæta á vettvang með ýmis tæki og tól til að mynda gosið og sjálfa sig, aðrir sameina útvistarástríðu og forvitnast um gosið.

Sumir eiga þó til að fara heldur óðslega að heitu hrauninu, en björgunarsveitarmaður á vettvangi brá á það ráð að flauta á óvarkára ferðamenn.

Enn magnaðra sjónarspil með dróna

Guy Miller, breskur drónaáhugamaður, ferðaðist til Íslands til að mynda eldgosið með drónanum sínum en hann heldur úti Instagram-reikningum noluck.fpv þar sem hann birtir myndbönd tekin af himnum ofan.

Guy kveðst hafa stokkið í fyrsta flug þegar tók að gjósa. „Ég kom í ágúst í fyrra svo ég rétt missti af síðasta gosi, svo ég var mjög spenntur að koma í þetta sinn.“

Guy Miller er áhugamaður um dróna og eldgos. Það fer …
Guy Miller er áhugamaður um dróna og eldgos. Það fer vel saman. mbl.is/Hákon

Dróni hans er gerður úr koltrefjum og er því bæði léttur og snöggur, en Guy segir sjónarspil gosins enn magnaðra með augum drónans. Dróninn er svokallaður FPV-dróni, en FPV stendur fyrir first-person view eða fyrstu persónu sjónarhorn. Meðfylgjandi drónanum eru gleraugu sem drónaflugmaðurinn setur á sig og getur séð „með augum drónans.“

„Upplifunin hefur verið mögnuð, með drónanum get ég flogið nálægt gígnum og séð hraunið krauma og skvettast upp,“ segir Guy og bætir við „Það er erfitt að sjá litina og sprengingarnar úr fjarlægð. Auðvitað er ekki heldur hægt að sjá gosið nálægt í eigin persónu, en með drónanum geturðu séð allt.“

Tilvalið að hjóla að gosinu

Á meðan sumir nýttu tækifærið til að prófa sig áfram í drónaljósmyndun, voru þó aðrir sem nýttu ferðina að gosstöðvunum í hjólaferð. 

Birgir Snær Ingason, íbúi í Hafnarfirði, tjáði blaðamanni mbl.is að leiðin að gosstöðvunum væri tilvalinn á fjallahjóli, nánar til tekið hjól frá  4x4 Adventures leigunni í Grindavík. Í för með Birgi eru tveir ferðamenn, annar félagi hans frá Bandaríkjunum, en hinn þýskur ferðamaður sem fékk að slást í för með þeim í Grindavík. 

„Þetta tók svona einn og hálfann tíma frá Grindavík og þetta er alveg geggjuð leið,“ segir Birgir. 

Hafnfirðingurinn Birgir hjólaði á fjallahjóli að eldgosinu í dag.
Hafnfirðingurinn Birgir hjólaði á fjallahjóli að eldgosinu í dag. mbl.is/Hákon

Mikil gasmengun á svæðinu

Hann kveðst ánægður að félagi hans fengi að sjá eldgos með eigin augum, en hann var í heimsókn á landinu fyrir tilviljun þegar hóf að gjósa. Birgir hefur þó eins og margir landsmenn áður séð gos og kvaðst ekkert hafa verið það spenntur að sjá þetta gos þar sem ekki er hægt að komast jafn nálægt.  

„En svo er þetta líka bara allt í lagi, en það er svolítið mikið gas hérna í dag. Ég hef verið að tala við hjálparaðila hérna í dag og mælarnir eru alveg að fara upp í 10, þannig maður á ekkert að fara nær en þetta,“ segir Birgir og bætir við þeir ferðafélagarnir hafi fallist á eitt um að stoppa ekki of lengi vegna mengunar. „Við erum allir byrjaðir að finna fyrir smá hausverk.“

Hann segir báða ferðafélaga sína meðvitaða um hætturnar sem fylgi eldgosum og hafi báðir aðgát í kring um gosstöðvarnar. Báðir hafi þó gantast með það að Birgir ætti að fórna sér og grípa smá hraun fyrir þá til að eiga sem minjagrip úr ferðinni. 

Það er að ýmsu að huga þegar gengið er að …
Það er að ýmsu að huga þegar gengið er að eldgosi. mbl.is/Hákon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert