Eðlilegt að barmarnir bresti

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir hrun gígbarmsins í nótt vera eðlilega hegðun í eldgosi og sjást í flestum gosum sem standi í einhvern tíma.

Hrunið sé yfirborðsfyrirbæri sem hafi ekkert að segja um kvikustreymið fyrir neðan.

Barmarnir hlaðast upp úr skvettum upp úr gígnum sem lenda utan við. Barmarnir eru mjög ótraustir og þegar hækkar í gígnum geta þeir brostið. Þá getur runnið tímabundið út þar sem brast sem síðan fer út að jaðrinum. Svo fer hraun aftur að renna eins og lega landsins segir til um.

Landslagið ræður rennslinu

Magnús Tumi segir landslagið ráða mestu um hvert og hvernig hraunið muni renna. Hann tekur undir það mat Verkís að hagi gosið sér eins og hefur verið hingað til muni taka það um mánuð að koma niður á Suðurstrandarveg. Það sé vissulega ein sviðsmynd en enginn geti spáð með vissu hversu lengi gosið stendur.

Hann segir mjög fallegt að horfa á gígbarmana bresta en í því felist þó engin sérstök tíðindi. Þetta sé staðalhegðun eldgosa.

Svona leit gígurinn við Litla-Hrút út síðdegis í gær.
Svona leit gígurinn við Litla-Hrút út síðdegis í gær. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert