Nota flautu til að halda fólki frá hrauninu

Ásta Guðmundsdóttir, björgunarsveitarkona úr Björgunarsveitinni Suðurnes ásamt samstarfsmanni sínum.
Ásta Guðmundsdóttir, björgunarsveitarkona úr Björgunarsveitinni Suðurnes ásamt samstarfsmanni sínum. Hákon Pálsson

Ásta Gunnarsdóttir, björgunarsveitarkona í Björgunarsveitinni Suðurnesjum, segir lögregluna hafa þurft að fara inn á bannsvæði til að smala fólki í burtu, en sumir hafa hætt sér langt inn á hættusvæði, sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað að loka vegna hraunflæðis og reykmengunar.

Hún segir þó almennt hafa gengið vel við gosstöðvarnar og fólk virði fyrirmæli öryggisaðila, þótt auðvitað séu ávallt undantekningar. 

Flauta á ferðamenn

„Þetta eru mestallt erlendir ferðamenn,“ segir Ásta. „Líka þau sem við vorum búin að banna að fara, en þau tóku ekki mark á okkur og fóru af stað, en löggan rak þau til baka.“

Hún segir björgunarsveitarmenn ekki hafa heimildir til að fjarlægja fólk af svæðinu, en reyni eftir bestu getu að halda fólki frá því að koma sér í hættulegar aðstæður.

Samstarfsmaður Ástu hefur hins vegar brugðið á það ráð að flauta á fólk sem hættir sér of nálægt hrauninu. Flautan virðist koma að góðum notum og loki gestir gosstöðvanna augunum gætu þeir eflaust ímyndað sér að þeir væru staddir á íþróttaleik. 

Björgunarsveitarmaður nokkur hefur brugðið á það ráð að flauta á …
Björgunarsveitarmaður nokkur hefur brugðið á það ráð að flauta á gesti gosstöðvanna sem gerast einum of djarfir í kring um hraunið. Hákon Pálsson

Spurði hvar hægt væri að sjá hraun

Ásta segir reykmengun á svæðinu sérstaklega hættulega fólki, en hún sé ansi mikil á lokaða svæðinu og því heilsuskaðandi fyrir fólk að fara of nálægt. Aðspurð hvort reykurinn sé þá ekki líka slæmur fyrir björgunarsveitarfólk hlær Ásta og kveðst enn ekki hafa fundið fyrir einkennum.

Hún kveðst hæstánægð með að sinna starfinu, en hún sé á fyrsta degi í sumarfríi og segir ýmislegt skondið koma upp við gosstöðvarnar.

„Það kom ferðamaður upp að mér og spurði hvar hann gæti séð hraun og ég náttúrlega benti honum bara á að líta allt í kringum sig. Hann hefur eflaust meint nýtt hraun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert