„Alltaf hætta á því að þetta fari af stað aftur“

Slökkvilið hefur náð tökum á gróðureldunum við Litla-Hrút. Hins vegar …
Slökkvilið hefur náð tökum á gróðureldunum við Litla-Hrút. Hins vegar þurfa slökkviliðsmenn sennilega að fara aftur á morgun þar sem lítið hefur rignt síðustu daga.. mbl.is/Hákon Pálsson

Slökkvilið hefur ekki þurft að slökkva gróðurelda við gosstöðvarnar í dag. Hins vegar þurfa slökkviliðsmenn sennilega að snúa aftur á morgun þar sem líklegt er að gróðureldar teygi aftur úr sér ef það fer ekki að rigna á Reykjanesskaga.

„Við náðum tökum á þessu í fyrradag og vorum í gær að slökkva í þeim blettum þar sem eldurinn fór af stað aftur,“ segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, við mbl.is.

„Við vonuðumst eftir að veðurspáin myndi rætast og það myndi rigna, en ég held að það sé engin rigning í kortunum.“

Þurfa líklega að snúa aftur á morgun

Hann segir að slökkviliðið hafi ekki verið við gosstöðvarnar í dag en þurfi líklegast að mæta á morgun þar sem kviknað hefur aftur í bletti við Litla-Hrút.

„Við vitum af einum smábletti sem er að byrja aftur. Við þurfum sennilega að bregðast við því á morgun. Annars erum við búin að ná fullum tökum á þessu,“ segir hann.

„Það er alltaf hætta á því að þetta fari af stað aftur ef það rignir ekkert.“

Veður­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands sagði í sam­tali við mbl.is í dag að spár gerðu ráð fyr­ir að hlýj­ast yrði á Suður- og Vest­ur­landi um helg­ina en bú­ast mætti við vætu á stöku stað, ekki síður við gosstöðvarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert