Gasmengun nær til Selfoss í kvöld

Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan spáir því að gasmengun muni ná til Selfoss, Þorlákshafnar og Eyrarbakka í kvöld en þar gera spár ráð fyrir að styrkur fari yfir 350 µg/m3 klukkan sex í kvöld. Þau loftgæði eru merkt með gulum lit og geta valdið minniháttar óþægindum hjá heilbrigðu fólki.

Mengunargildi fara yfir 2.600 í Vogum klukkan átta í kvöld eða yfir í rautt. Við þær aðstæður er fólki ráðlagt að dvelja innandyra og loka gluggum. 

Safnast saman í kringum gossvæðið

„Undanfarna daga hefur verið norðvestlæg átt og þetta farið beint í suðaustur. En í dag verður hægviðri og þá mun þetta geta safnast saman í kringum gossvæðið,“ segir Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu.

„Í kvöld gæti mengun farið í norðvestur og þá yfir Voga, jafnvel yfir Keflavík um tíma. Það væri í nokkra klukkutíma og síðan myndi það minnka.“ Gert er ráð fyrir að loftgæði fari yfir 350 µg/m3 í Keflavík og Grindavík um sjöleytið í kvöld. 

Þá nefnir Björn að mengun yfir Eyrarbakka og Stokkseyri sé spáð í stuttan tíma og því möguleiki á að íbúar muni lítið finna fyrir henni.

Ráðleggingar Umhverfisstofnunar vegna gasmengunar má nálgast hér.

Vogar eru merktir með rauðum lit klukkan átta í kvöld.
Vogar eru merktir með rauðum lit klukkan átta í kvöld. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert