Hættusvæði stækkar í suðvestur

Hættusvæðið stækkar í suðvestur.
Hættusvæðið stækkar í suðvestur. Kort/Veðurstofa Íslands

Hættusvæðið þar sem ný gosop geta myndast hefur verið stækkað í suðvestur. Þetta kemur fram í uppfærðri tilkynningu Veðurstofunnar, sem hefur uppfært hættumatskortið fyrir gosstöðvarnar við Litla-Hrút.

Skjálftagögn hafa verið yfirfarin og ný líkön keyrð til að áætla enn betur legu kvikugangsins sem myndaðist í aðdraganda gossins en í því ljósi hefur hættusvæðið verið stækkað. 

Þá nær kvikugangurinn nú frá Keili í norðri undir Meradalahnjúka í suðri.

Myndin var tekin um hádegi í dag.
Myndin var tekin um hádegi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Órói mældist áður en gígurinn brast

Hraunrennsli hefur einskorðast við eitt gosop síðustu daga og rennur hraun áfram í suður, en úr vestari hluta gosopsins eftir að hluti af gígbarminum brast aðfaranótt 19. júlí. Áður sást aukning í óróa á mælum Veðurstofunnar á um 5 klst tímabili sem féll svo skyndilega þegar barmurinn brast.

Sólarhringinn 17.-18. júlí mældist meðalhraunrennsli upp á 8,7 m3/s. Hraunbreiðan úr gosinu við Litla-Hrút náði yfir um 0,92km2 lands 18. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert