Hraunflæði jókst við hrun gígsins

Páll segir hraunið renna nú að mestu niður dal þannig …
Páll segir hraunið renna nú að mestu niður dal þannig að hraunið renni í ákveðna átt í stað þess að flæða um víðerni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eldsumbrotin á Reykjanesskaga halda áfram og nokkur tíðindi urðu þar aðfaranótt miðvikudags kl. 4.12 þegar ein hlið gígsins sem hefur verið að byggjast þar upp brast og hraunið sem streymir frá honum breytti um stefnu til vesturs.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir mikilvægt að fylgjast vel með stöðu mála. Mikið hraunflóð fylgdi hruni gígsins um tíma.

„Það rann hraun yfir svæði þar sem var ekki hraun áður,“ segir Páll en umfang þess svæðis sem nýtt hraun þekur nú hefur stækkað umtalsvert fyrir vikið.

„Svo verður framtíðin að leiða í ljós hvaða áhrif þetta nákvæmlega hefur, bæði á gosið sjálft og rennslið frá því.“

Páll segir þennan viðburð í sjálfu sér eðlilegan í framþróun gossins miðað við reynslu úr fyrri gosum. „Þetta er hluti af því hvernig eldstöð vex. Það sem er furðulegra er hversu þetta er búið að vera stöðugt frá öðrum og þriðja degi.“

Landslagið breytist hægt

Páll segir ómögulegt að segja til um hver framvinda næstu daga og vikna verði. „Landslagið breytist hægt og rólega.“

Hann segir hraunið renna nú að mestu niður dal þannig að hraunið renni í ákveðna átt í stað þess að flæða um víðerni. Páll segir ómögulegt að spá fyrir um framhaldið en ný gögn sem birt voru í gær bendi til þess að það muni heldur draga úr hraunflæðinu á næstunni frekar en það bæti í það.

Meira í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir mikilvægt að fylgjast vel með stöðu …
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir mikilvægt að fylgjast vel með stöðu mála er varðar eldgosið á Reykjanesskaga. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert