„Það er ekki verið að opna nýja leið að eldgosinu“

Hjördís biðlar til almennings að nýta afmarkaðar gönguleiðir upp á …
Hjördís biðlar til almennings að nýta afmarkaðar gönguleiðir upp á eigið öryggi og tímanýtingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ekki verið að opna nýja leið að eldgosinu,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna um opnun Vigdísarvallavegar nálægt gosstöðvunum. Hún segir veginn í raun ekki hefðbundinn veg, en hann hafi ávallt verið illa fær og því ekki mælt með að fólk gangi hann til að sjá gosið.

„Það er engin stikuð leið, engin bílastæði, engin klósett, engar björgunarsveitir, engin lögregla, það var bara verið að opna veginn fyrir fólk til að nota eins og áður var,“ segir Hjördís í samtali við mbl.is. Fyrr í dag var greint frá því að vegurinn hefði verið opnaður á ný.

Eigum það til að ofmeta eigin getu

Hjördís biður almenning að nýta afmarkaðar gönguleiðir upp á eigið öryggi og tímanýtingu. Vigdísarvallaleiðin sé styttri í kílómetrum en talsvert erfiðari og flóknari en gönguleiðirnar. Hún mælist því til þess að fólk haldi sig frá Vigdísarvallavegi, burtséð frá reynslu og hreysti. 

„Við eigum það til að ofmeta eigin hæfileika og getu,“ segir Hjördís og bætir við að auðvitað leggi enginn af stað haldandi að hann muni þurfa á aðstoð björgunarsveitar að halda. Fólk eigi það einnig til að heyra það sem það vill heyra og því vilji hún ítreka að vegurinn sé ekki gönguleið. 

 „Þetta getur verið miklu flóknara, tímafrekara og miklu meiri hætta.“ Hún segir slysum og útköllum strax hafa fækkað þegar gönguleiðirnar voru opnaðar enda séu þær öruggar og greiðar.

Verðum að bera virðingu fyrir landeigendum

Hjördís biðlar einnig til ferðaþjónustuaðila að brýna fyrir ferðamönnum að nýta gönguleiðirnar, þar sem viðbragðsaðilar séu til reiðu. „Við vitum að þau eru alltaf með okkur í liði því þau vilja líka passa upp á öryggi síns fólks.“

Hún segir mikilvægt að nýta þá innviði sem hafa verið settir upp til að almenningur geti séð gosið. Það hafi verið tímafrek vinna sem unnin var í samráði við landeigendur á svæðinu.

„Við verðum líka að bera virðingu fyrir að það eru aðrir landeigendur en ríkið á þessum stað,“ segir Hjördís. Hún minnir á að það hafi verið gífurlegt vandamál áður en bílastæðum var komið upp á svæðinu að bílum var lagt á víð og dreif um Suðurstrandarveginn. Það muni ekki ganga upp umhverfis Vigdísarvallaveg, þar sem vegurinn beri það einfaldlega ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert