„Við erum bara að læra af reynslunni“

Neskaupstaður þann 30. mars, eftir snjóflóð.
Neskaupstaður þann 30. mars, eftir snjóflóð. Ljósmynd/Landsbjörg

„Við erum bara að læra af reynslunni, bæði þegar kemur að uppbyggingunni sjálfri og hvernig á að haga framkvæmdinni,“ segir Stefán Þór Eysteinsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, í samtali við mbl.is. „Garðurinn sem slíkur er samt tiltölulega líkur því sem var þarna nú þegar.“

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt auglýsingu á deiliskipulagi fyrir snjóflóðavarnir fyrir ofan Neskaupstað. Nýtt deiliskipulag var kynnt í mars, stuttu áður en snjóflóð féllu yfir bæinn.

730 metra þvergarður á að rísa undir Nes- og Bakkagiljum. Auk þess á að byggja tvær keiluraðir sem eiga að draga úr krafti snjóflóða áður en þau skella á garðinn. Alls nær deiliskipulagið yfir 23 hektara. Þrýst er á að framkvæmdin verði boðin út í haust.

Elstu garðarnir frá 2002

Fyrsti varn­argarður­inn í Nes­kaupstað var sett­ur upp við Drangagil árið 2002. Næsti garður við Tröllagil var full­gerður árið 2013. Gerð varn­argarðs við Urðar­botn lauk í fyrra og stend­ur þá ein­ung­is eft­ir varn­argarður við Nes- og Bakkagil. 

Stefán segir við að bæjarfulltrúar hafi fengið kynningu á nýju deiliskipulagi varnarmannvirkja síðastliðinn mars. Kveðst hann þó ekki geta sagt til um hvernig kostnaðaráætlunin fyrir varnargarðana lítur út.

Þrýst á að framkvæmdin verði boðin út í haust. Frá því að auglýsing er send í loftið gefst almenningi sex vikur til að skila inn athugasemdum. Að því loknu gengur skipulagið til Skipulagsstofnunar til staðfestingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert