Rýming líklega í gildi fram á mánudag

Seyðisfjörður. Mynd úr safni.
Seyðisfjörður. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rýming á Seyðisfirði og í Neskaupsstað verður líklega í gildi út helgina. Hríðarveður hefst í nótt og verður fram á mánudag. Þetta segir Erla Guðný Helgudóttir, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar, í samtali við mbl.is. 

Rýmingin tekur gildi klukkan 22 í kvöld og mun Veðurstofan þá lýsa yfir hættustigi vegna snjóflóðahættu í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Þá tekur einnig óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi og Austfjörðum.

Óveðrið byrjar í nótt

„Versta veðrið er á morgun,“ segir Erla og bætir við að óveðrið byrji seint í nótt. Því var ákveðið að rýma fyrr en seinna. 

Hún segir að um „lágmarksrýmingu“ sé að ræða en rým­ing­in nær ekki til margra íbúa. 

Veðurstofan vakti stöðuna og að hættumatið verði endurmetið í fyrramálið. 

Vegir opnir

Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi segir að búið sé í þremur húsum sem þurfi að rýma á Seyðisfirði. Íbúar þeirra hafa þegar verið upplýstir um rýminguna. 

Í Neskaupstað þurfa íbúar á Þrastarlundi að rýma sem og eigendur iðnaðarhúsnæðis og hesthúss. 

Vegir á Seyðisfirði og í Neskaupstað á rýmdum svæðum eru opnir fyrir umferð.

„Vegna veðurs eru íbúar fjórðungsins þó hvattir til að vera ekki á ferðinni nema nauðsyn krefur,“ segir í tilkynningunni. 

Aðgerðastjórn fundar með Veðurstofunni klukkan 9 í fyrramálið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert