Auknar líkur á stórum snjóflóðum fyrir austan

Snjóflóð í hlíðinni austan megin við Eskifjörð þar sem vegurinn …
Snjóflóð í hlíðinni austan megin við Eskifjörð þar sem vegurinn upp í Oddskarð liggur. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Líkur á stórum og náttúrulegum snjóflóðum munu aukast um helgina á Austfjörðum, þegar snjóar og skefur.

Búist er við að hvessa muni að norðaustan á laugardag með smá éljum. Hríðarveður í norðaustanátt muni þá hefjast aðfaranótt sunnudags og lifa fram á mánudag.

Veðurstofan varar við mikilli hættu á snjóflóðum og bendir á að talsvert hafi bætt í snjó á svæðinu.

Hvassar norðaustlægar áttir hafi verið ríkjandi. Snjór hafi safnast hlémegin fjalla og í giljum og lægðum.

Mjög veik lög myndast um páskana

„Snjórinn er lagskiptur og snjógryfjur og nýleg náttúruleg snjóflóð benda til þess að mjög veik lög hafi myndast um páskana,“ segir í viðvörun Veðurstofunnar.

„Þau geta enn verið til staðar á sumum stöðum og snjóflóð hafa fallið vegna umferðar fólks um brattar brekkur og gil. Einnig hefur eldra og dýpra veikt lag fundist í gamla snjónum hátt til fjalla. Fargaukning vegna snjókomu og skafrennings um helgina gæti valdið því að veik lög bresta og stór náttúruleg snjóflóð falla.“

Vikið er að nýlegum snjóflóðum og tekið fram að mörg flekaflóð hafi sést í kringum Eskifjörð, og flest þeirra hafa fallið í snjókomu og skafrenningi um páskana.

Minni flekaflóð hafi fallið í suður- og suðvesturhlíðum Bjólfs í Seyðisfirði. Stórt snjóflóð féll þá í Svartafjalli ofan Eskifjarðar, líklega á þriðjudagsmorgun 2. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert