Gosið hefur áhrif á loftgæði í borginni

Gosið hefur áhrif á loftgæði í borginni. Einstaklingar með undirliggjandi …
Gosið hefur áhrif á loftgæði í borginni. Einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma eru hvattir til fylgjast með mælingum loftgæða og forðast áreynslu utandyra. mbl.is/Hákon

Loftgæði á höfuðborgasvæðinu eru verri í dag en undanfarna daga og mælast sæmileg samkvæmt stöðlum Umhverfisstofnunar. Einnig hafa þau verið sæmileg við Keflavíkurflugvöll og í Reykholti. 

Ragnhildur Finnbjörnsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir það eiga sér rót að rekja til dreifingu gosmóðu sem kemur frá gosstöðvunum við Litla-Hrút. Hún berst frá gosinu og frá landi, en kemur svo til baka í öðru formi, t.d. sem súlfat. 

Þá sendi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur frá sér tilkynningu í hádeginu í dag um gosmóðu sem liggur yfir höfuðborginni í bland við þokuloft. 

„Gosmóða getur orsakað slen, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk flensueinkenna. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu. Þeir sem eru síður viðkvæmir geta einnig fundið fyrir einkennum. Ekki er mælt með því að láta ung börn sofa úti í vagni við þessar aðstæður,“ segir í tilkynningunni.

Viðkvæmir hvattir til að vera inni

„Núna hefur mælst mikil gosmóða, sem mælist eins og svifryk og bendir það til þess að versnandi loftgæði stafi af eldgosinu."

Þegar loftgæði mælast sæmileg geta viðkvæmir einstaklingar fundið fyrir óþægindum í öndunarfærum og hósta. Þá getur það einnig haft ertandi áhrif á heilbrigða einstaklinga.

Viðkvæmir einstaklingar og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eru hvattir til þess að forðast áreynslu utandyra, fylgjast með mælingum og fara að gátt. 

Ungabörn sofi ekki úti í vagni

Eldri börn eiga ekki að reyna á sig utandyra og ungabörn eiga ekki að sofa úti í vagni. Þá er mælt með því að slökkt sé á loftræstingu meðan loftgæði eru sæmileg. 

„Við hvetjum þá sem glíma við öndunarfæraerfiðleika s.s. astma til að vera með aukaskammta til handar af lyfjum og fylgjast með stöðunni á loftgæðum.“

„Klárlega ekki gott fyrir heilsuna hjá neinum"

Ragnhildur segir dreifingu gosmóðu fara eftir vindátt, en erfitt hafi verið að mæla nákvæmlega hvert það muni rata vegna áttleysu.

„Þetta er klárlega ekki gott fyrir heilsuna hjá neinum, en þetta efni er ekki minna heilsuspillandi en SO2 eða svifryk. Því gilda sömu ráðleggingar til almennings og eiga viðkvæmir að hafa varan á."

Hægt er að fylgjast með stöðu loftgæða á síðunni loftgaedi.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert