Enginn verið með dólg í dag

Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum klukkan 18.
Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum klukkan 18. mbl.is/Hákon

Ágætlega hefur gengið að koma fólki út af svæðinu við gosstöðvarnar við Litla-Hrút á Reykjanesskaga í kvöld. Lokað var fyrir aðgengi klukkan 18 í dag. 

„Fólk er ekki endilega að taka á mark á því sem við björgunarsveitarmennirnir erum að segja. En það hefur enginn verið með dólg,“ segir Arnar Steinn Elísson sem stýrir aðgerðum á svæðinu fyrir Landsbjörgu. 

Ákveðið var að loka svæðinu síðdegis í dag vegna þess að illa hefur gengið að hafa stjórn á fólki. Þá lenti gönguhópur í því í nótt að hraun rann beggja vegna við hann. 

Mikil mengun á svæðinu

Arnar segir að talsverður fjöldi hafi verið á svæðinu um klukkan sex og að fólk sé að tínast til baka.

„Það er ágætisveður, en það er alveg rosaleg mengun. Gildin hafa farið upp og mælar hafa pípt hjá okkur. Þetta er bæði gróðureldareykur og svo mengun frá eldgosinu,“ segir Arnar. Lágskýjað er yfir Reykjanesskaganum í kvöld. 

Arnar segist vonast til þess að kvöldið og nóttin gangi vel fyrir sig og að fólk laumi sér ekki inn á svæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert