Hraunrennslið nú neðanjarðar

Eldfjalla- og náttúruvárhópurinn greinir í færslu sinni frá því að …
Eldfjalla- og náttúruvárhópurinn greinir í færslu sinni frá því að hraunrennsli frá eldgosinu virðist nú alfarið neðanjarðar. mbl.is/Árni Sæberg

„Hraunrennsli í eldgosinu virðist nú vera alfarið neðanjarðar og gígskálinn virkar einungis sem bullsjóðandi pottur án yfirborðsrennslis. Í kvöld má greina nokkra staði í hraunbreiðunni þaðan sem hraun vellur upp úr hraunrásum neðanjarðar.“

Frá þessu greinir Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands á Facebook-síðu sinni og segir þar enn fremur að vestan við gíginn sé myndarleg hrauntjörn sem nærist af hægu innrennsli gegnum göng sem tengjast beint í gígskálina.

Framvinda helluhrauns hægari

„Sunnan við gíginn er tekið að myndast tiltölulega slétt helluhraun ofan á úfnara hrauni,“ segir enn fremur. „Undan storknuðu helluhrauninu er hraunbráð að brjótast fram á fjölmörgum stöðum og er það til marks um að net hraunrása neðanjarðar sé að myndast og þróast. Haldist gosið áfram stöðugt má búast við að þessi þróun haldi áfram og að hraunrásir neðanjarðar muni veita hrauninu langar leiðir frá gígnum.“

Skrifar hópurinn að framvinda helluhrauns sé almennt mun hægari en hins úfnara apalhrauns. Það hafi sést vel í gosinu í Geldingadölum fyrir tveimur árum þar sem hraunjaðarinn skreið oftar en ekki fram sem úfið kargahraun.

„Á morgun eru tvær vikur frá því að gosið hófst. Gosórói síðastliðna viku hefur verið merkilega stöðugur, fyrir utan stök og tímabundin frávik þegar breytingar hafa orðið á sjálfum gígnum,“ segir að lokum í athugunum hópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert