Súrt regn einn möguleiki en úrkoma lítil á morgun

Svava segir ekki sniðugt að taka dýr með sér að …
Svava segir ekki sniðugt að taka dýr með sér að gosstöðvunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Ísland hefur litlar áhyggjur af súru regni á morgun. Lítil rigning sé í kortunum. Heilbrigðisfulltrúi segir súrt regn vissulega einn möguleika í stöðunni komi rigning í ákveðnum aðstæðum. Þá hvetur hún fólk til þess að sleppa því að taka dýr með sér að gosstöðvunum, þau geti drepist vegna gosmengunar á svæðinu.

Rúv greinir frá því að „súrt regn gæti fallið á morgun.“ Rigni á höfuðborgarsvæðinu á morgun gætu brennisteinssambönd bundist regninu og þannig myndað súrt regn.

„Ég hef svo sem ekki pælt mikið í þessu súra regni nema varðandi lægðina á miðvikudaginn þá er stíf austanátt og þá blæs þessu öllu frá okkur, frá landi. Við búumst svo sem ekki við að það verði mikill brennisteinsdíoxíð blandað í rigninguna þá, fyrst það er svona stíf austanátt á sama tíma. Við höfum engar áhyggjur af því í augnablikinu,“ segir Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„Það verður frekar lítil rigning sýnist mér, ef það verður einhver úrkoma þá eru þetta úrkomublettir hér og þar og rosalega lítið magn,“ segir Magnús um morgundaginn.

Súrt regn geti fallið ef brennisteinssameindir eru í lofti

Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi og verkefnastjóri hjá heilbrigðiseftirlitinu, segir mengunina sem legið hefur yfir höfuðborgarsvæðinu virðast hafa færst til, með því minnki líkurnar á súru regni. Þar sem brennisteinssambönd séu í loftinu sé þó möguleiki á súru regni þegar rigna tekur.

„Þar sem það eru brennisteinssambönd í loftinu eru líkur á að þetta gerist og hefur náttúrulega gerst í tengslum við fyrri eldgos en það er fylgst með þessu, jarðvísindastofnun, raunvísindastofnun, Veðurstofan og svona. Sýrustigið er mælt í vatninu í kringum gosstöðvarnar, Veitur eru með sýnatökuáætlun til að fylgjast með hvort þetta geti haft áhrif á neysluvatn og það hefur ekki verið raunin í síðustu gosum,“ segir Svava.

Hún segir áhrif súrs regns vera mest fyrir byggingar og gróður sé það viðvarandi til lengri tíma. Hún viti ekki til þess að áhrif séu á fólk.

„Svo er náttúrulega ómögulegt að segja til um hve mikið þetta gæti verið því við vitum ekkert hvað er af þessum brennisteinssamböndum í loftinu á hverjum tíma. Það er óvissuþáttur en þetta er vissulega einn möguleiki, það getur fallið súrt regn þegar þessi mengun er til staðar,“ segir Svava.

Gæludýr gætu dáið við gosstöðvarnar vegna gasmengunar

Hvað varðar heilsu dýra vegna mengunar frá eldgosinu segir Svava það sama gilda fyrir dýr og menn, gösin sem geti komið frá gosinu séu hvorki æskileg fyrir fólk né dýr. Passa beri upp á dýr eins og okkur sjálf í þeim aðstæðum.

„Aðal atriðið er að taka ekki dýrin með sér á gosstöðvarnar. Dýrin eru náttúrulega nær jörðinni, eins og hundar, þar sem að þessi gös eru gjarnan þyngri, geta safnast saman í lægðir og þessi dýr geta jafnvel drepist ef þau fara inn í dældir eða eitthvað þar sem allt er orðið súrefnissnautt. Í rauninni ættirðu ekki að taka börnin þín heldur með á gosstöðvarnar sem eru líka viðkvæmari fyrir en maður ætti helst ekki að taka dýrin sín með á gosstöðvarnar. [...] Dýrin eru ekkert spennt fyrir gosinu eins og við þannig ég held það sé betra bara að hugsa um þeirra heilsu og hag frekar en að draga þau með í þetta ferðalag,“ segir Svava.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert