„Við erum að breyta um taktík“

Slokkviliðsmenn munu keyra meira vatnsmagn upp að gosi í dag. …
Slokkviliðsmenn munu keyra meira vatnsmagn upp að gosi í dag. Mynd frá Ámundínusi Erni Öfjörð, varaliða slökkviliðsins í Grindavík. Ljósmynd/Aðsend

Slökkviliðið í Grindavík hyggst reyna nýja aðferð gegn gróðureldunum sem loga nú við Litla-Hrút. Dagurinn í dag verður nýttur í að keyra meira vatnsmagn að gossvæðinu svo að hægt sé að takast á við slökkvistörfin af meira afli á morgun.

Gróðureldarnir á Reykjanesskaga hafa sótt í sig veðrið síðustu daga. Um fjórir ferkílómetrar af gróðurlandi hafa nú orðið eldi að bráð síðan gos hófst. 

„Þetta logar enn alls staðar,“ segir Ein­ar Sveinn Jóns­son slökkviliðsstjóri. „Við erum að breyta um taktík. Við komum nú meira vatnsmagni upp eftir í trukkum. Plan dagsins er að keyra vatn inn á svæðið.“

„Við höfum að mestu leyti flutt vatn úr lofti og svo aðeins með trukkum en við ætlum nú að einbeita okkur að því að koma meira vatni að og það er þá í trukkum.“

Daglega hafa um 15 til 20 slökkviliðsmenn verið við slökkvistörf á svæðinu en á morgun verði þeir fleiri. „Við ætlum að setja meira afl í að stöðva þetta.“

Framkvæmdadagurinn á morgun

Slökkviliðið ver því deginum í dag að mestu í að undirbúa morgundaginn. Í nótt rigndi örlítið á Suðurlandi en að sögn Einars hafði það engin áhrif á gróðureldana. „Það bleytti ekki upp í neinu.“

„Framkvæmdadagurinn er á morgun. Það er líka hagstæð vindátt,“ segir hann en á morgun blæs vindur úr suðaustri, sem er hagstæð átt að því leyti að gasmengunin berst frá slökkviliðsmönnum.

„Við reynum að forðast gufurnar eins og við getum og vinnum með vindinn í bakið. Við högum okkar störfum þannig að menn standi ekki mikið í mengun,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert