Tugir slökkviliðsmanna á leið á gosstöðvarnar

Slökkviliðsmenn að störfum við gosstöðvarnar nýverið.
Slökkviliðsmenn að störfum við gosstöðvarnar nýverið. mbl.is/Hákon

Slökkviliðsmenn í Grindavík eru lagðir af stað að gosstöðvunum við Litla-Hrút en alls munu hátt í 30 manns sinna slökkvistörfum á svæðinu í dag.

Um er að ræða stærstu aðgerðir gegn gróðureldunum frá því að gosið hófst á Reykjanesskaga.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, vonast til þess að búið verði að ráða niðurlögum gróðureldanna í kvöld. Það sé markmiðið.

„Það væri óskastaða,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Um fjórir ferkílómetrar af gróðurlandi hafa þegar orðið eldinum að bráð við gosstöðvarnar.

Þarf ekki mikið að bregða út af

Einar segist bjartsýnn á að markmið dagsins muni nást.

„Ég væri ekki að leggja af stað í þetta verkefni nema að ég væri bjartsýnn á að þetta myndi nást. En það þarf ekki mikið að bregða út af til þess að það teygist á lopann.“

Þá segir hann veðuraðstæður ágætar fyrir slökkvistörfin á gossvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert