Fann aldaforna skeifu við gosstöðvarnar

Skeifan sem Muhammed fann gæti verið frá fjórtándu öld.
Skeifan sem Muhammed fann gæti verið frá fjórtándu öld. Ljósmynd/Aðsend

Muhammed Emin Kizilkaya, einn stjórn­enda vefsíðunn­ar Sev­ere We­ather Europe, rak augun í heldur forvitnilegan hlut þegar hann sótti gosstöðvarnar við Litla-Hrút tveimur dögum eftir að eldgosið hófst. Hluturinn reyndist vera hestaskeifa sem gæti verið allt að 700 ára gömul.

Muhammed hjólaði að gosstöðvunum með það fyrir stafni að taka upp myndskeið en hann var jafnframt í beinni útsendingu frá gosstöðvunum fyrir ýmsa danska miðla. Muhammed er fædd­ur og upp­al­inn í Dan­mörku en er nú bú­sett­ur á Íslandi og stund­ar nám við Há­skóla Íslands. 

frá fjórtándu til nítjándu öld

Hann segir í samtali við mbl.is að hann hafi verið á leið sinni til baka þegar að hann sá lítinn hlut standa upp úr jörðinni nokkrum metrum frá eldgosinu. Hann gróf hlutinn upp og ákvað að geyma hann þar sem hann hafði á tilfinningunni að um fornleifarfund væri að ræða.

Þegar heim var komið ákvað Muhammed að fara með fundin á Þjóðminjasafnið til að fá frekari upplýsingar. Þar var honum bent á að leita til Fornleifastofnunar Íslands. Þegar þangað var komið ræddi hann við Guðrúnu Öldu Gísladóttur fornleifafræðing sem sagði honum að skeifan gæti verið frá fjórtándu öld.

Muhammed stundar nám við Háskóla íslands.
Muhammed stundar nám við Háskóla íslands. mbl.is/Arnþór

„Hún sá að það væru línur á hliðinni á hlutnum og sagði að línurnar gæfu til kynna að um skeifu væri að ræða. Hún sagði líka að erfitt væri að meta hve gömul skeifan væri og benti á að hún gæti verið frá fjórtándu öld en gæti verið nýrri, frá nítjándu öld jafnvel.“

Svæðið nú komið undir hraun

Guðrún benti Muhammed á að erfitt sé að meta nákvæmlega hve gömul skeifan er þar sem málmar eru fljótir að ryðga og rýrna á Íslandi vegna veðurfarslegra atriða. 

Muhammed telur allar líkur að því að svæðið þar sem hann fann skeifuna sé komið undir hraun núna og þar með nánast ógerlegt að finna frekari fornleifar á svæðinu.

Hægt er að fylgjast með Muhammed á Facebook og Instagram en Facebook-færslu hans um fundin má sjá hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert