Sandfok líklega ástæða lítilla loftgæða

Þorsteinn Jóhannesson segir fólk misviðkvæmt fyrir gosmóðu, en myndi ekki …
Þorsteinn Jóhannesson segir fólk misviðkvæmt fyrir gosmóðu, en myndi ekki segja að fólk sé að ímynda sér einkenni. mbl.is/Árni Sæberg

Þor­steinn Jó­hanns­son, sér­fræðing­ur í loft­meng­un hjá Um­hverf­is­stofn­un, seg­ir hverf­andi loft­meng­un sem mældist óholl í gær sennilegast vera sandfok að þessu sinni, en ekki mengun frá gosstöðvum.

Í samtali við mbl.is segir hann vindáttina í gær benda til þess að um sandfok af ströndum Suðurlands sé að ræða, en það sé ekki óalgengt á vorin og sumrin. Hann kveðst einnig telja sig geta skorið úr um hvers lags mengun sé að ræða út frá litum þokunar. Gosmóða sé yfirleitt gráleit og bláleit, en sandfok meira hvít og jafnvel brún. Það séu þó að mestu þjálfuð augu sem geti greint slíkt.

Almenningur fylgist betur með

Einnig segir hann að hægt sé að skera úr um tegund mengunar út frá kornastærðum, sem mælarnir sýni og sé gosmóða til að mynda mun smærri agnir heldur en aðrar tegundir mengunar. 

Aðspurður hvort slík tilfelli séu algeng og almenningur fylgist einfaldlega betur með loftgæðum vegna gossins, segir Þorsteinn það fara eftir veðri að hverju sinni en að sandfok eigi sér stað allt frá tvisvar til fimm sinnum á ári. Hvort almenningur sé að fylgjast betur með þorir hann ekki að fullyrða um þó honum þyki það ekki ósennilegt. 

Fann sjálfur fyrir óþægindum í hálsi

Hann segir aftur á móti SO2-gas ekki hafa mælst sérstaklega mikið í byggð í þessu gosi, með örfáum undantekningum. Gosmóðan, eða SO4, hafi hins vegar fundist víðar, en hún mælist í svifryksmælum þar sem SO2-gasið hafi hvarfast í SO4, sem sé í raun brennisteinssvifryk. 

Þorsteinn segir reyndar SO2 hafa mælst helst til hátt í Vogum í gærkvöldi og í Grindavík í morgun, en hann var sjálfur á ferðinni við Voga í gærkvöldi og fann þá fyrir óþægindum í hálsi.

Hann segir það tengt sólskini og rakastigi hversu hratt gosmóðan myndist. Því sé það eflaust eitthvað tengt blíðviðrinu að meiri gosmóða mælist í þetta sinn en í fyrra gosinu.

Loftgæði mælingar eru almennt góðar á landinu, en Þorsteinn segir …
Loftgæði mælingar eru almennt góðar á landinu, en Þorsteinn segir gott að fólk fylgist með á vefsíðu Umhverfisstofnunnar. Skjáskot/Loftgæði.is

Fólk er misviðkvæmt

Nú segjast sumir á höfuðborgarsvæðinu finna fyrir óþægindum sem þeir telja tengjast loftgæðum, en mælingar virðast ekki alltaf endurspegla það. Getur verið að fólk sé að ímynda sér eitthvað eða eru sumir bara mjög viðkvæmir? 

„Ég vil nú ekki segja að fólk sé að ímynda sér það,“ segir Þorsteinn. „Fólk er bara mjög misviðkvæmt, sumir eru mjög viðkvæmir, eru kannski með astma eða undirliggjandi lungasjúkdóma.“ 

Er eðlilegt að fólk finni fyrir einkennum á höfuðborgarsvæðinu?

„Já já þegar gosmóðan var hérna fyrr í vikunni þá gat fólk alveg fundið fyrir því í bænum. Þeir sem eru viðkvæmir geta alveg fundið það.“

Þorsteinn kveðst ekki hafa skoðað loftdreifingarspá fyrir helgina, en bendir fólki á að nota loftgaedi.is en þar má einnig finna dreifilíkan gosmengunar frá Belgingi og Veðurstofunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert